146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[11:12]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Við ræðum hér fjármálaáætlun sem samþykkt var í kjölfar eldhúsdagsumræðna þar sem aðeins var talað um hana. Ríkisstjórnin hefur enn ekki getað útskýrt fyrir þjóðinni eða þingmönnum hvert hún stefnir. Hún telur það vera sitt helsta mál að sýna ábyrgð í ríkisrekstri, en leiðirnar í því virðast vera að minnka ríkisrekstur, færa hann til einkaaðila og vega að samneyslu. Þetta er allt annar tónn en var sleginn fyrir kosningar.

Ræðum þá aðeins hvaða ábyrgð felst í þessari fjármálaáætlun. Í henni er skilið eftir 8,5 milljarða gat í rekstri ríkisins og óvíst er um 17 milljarða kr. árið 2019 vegna þess að fallið virðist vera frá fyrirhugaðri hækkun á virðisaukaskatti á ferðamenn sem taka átti gildi í júlí 2018. Ekki eru lagðar til neinar tekjur eða sagt hvar eigi að skera út á móti. Þetta er óábyrgt.

Það er mikilvægt í miðri uppsveiflu að halda sig við markmið um niðurgreiðslu skulda en ekki gera eins og ríkisstjórnin gerir nú að lofa ófjármögnuðum útgjöldum. Það dregur úr trausti og setur markmið um afgang á fjárlögum í fullkomið uppnám og magnar sveiflu og aukinn þrýstingur myndast á hækkun vaxta. Með þessu kyndir ríkisstjórnin líka undir óstöðugleika á vinnumarkaði, allt vegna þess að fjárlaganefnd og þingmenn ríkisstjórnarinnar ráða ekki við að afla ríkissjóði tekna þegar það hefur sjaldan verið auðveldara. Í blindri trú á þá kennisetningu frjálshyggjunnar að opinber afskipti og skattheimta geti ekki verið af hinu góða leggja þeir til sínar vondu hugmyndir.

Grafið er undan félagslegum stöðugleika sem er þó ein af undirstöðum norræna módelsins, sem ríkisstjórnin talar reyndar mjög fallega um þegar það hentar. Þessar fyrirætlanir ásamt spennitreyju fjármálaáætlunar, sem kveður á um tiltekinn afgang af ríkisrekstri, gera það að verkum að niðurskurðarhnífurinn mun blasa við og falla ef aðeins höktir í efnahagslífinu og uppgangurinn minnkar. Þess vegna er brýnt að núverandi ríkisstjórn haldi ekki völdum.

Þingmenn Samfylkingarinnar hafna með öllu þessum óábyrgu vinnubrögðum meiri hlutans við afgreiðslu fjármálaáætlunar. Það að umgangast áætlunina svona er í algjörri andstöðu við áform um betri vinnubrögð og fjárlagagerð og markmið nýrra laga um opinber fjármál, góða hagstjórn og styrka og ábyrga stjórn opinberra fjármála.

Ófjármögnuð útgjöld meiri hlutans verða enn óheppilegri þegar þau eru sett í samhengi við helstu athugasemdir fjármálaráðs og annarra um að sýna þurfi meiri ábyrgð í góðærinu; skila þurfi öruggum afgangi á fjárlögum, meiri frekar en minni, og að lækkun efra þreps virðisaukaskatts í miðri uppsveiflu sé mjög óheppileg. Þeir 13,5 milljarðar sem tapast ættu frekar að nýtast í uppbyggingu á öðrum sviðum eins og lækkun tryggingagjalds sem kæmi þá nýsköpunarfyrirtækjum til góða.

Sé einbeittur vilji til þess að lækka skatta, sama hvað það kostar, þyrfti ríkisstjórnin kannski frekar að huga að félagslegum og samfélagslegum málum sem hafa verið rædd töluvert og eru ófjármögnuð í fjármálaáætluninni. Þar má kannski nefna erfiða stöðu á húsnæðismarkaði, málefni aldraðra og öryrkja, svo að ég tali nú ekki um að ráðast gegn fátækt. Í þessari fjármálaáætlun felst sem sagt ekki ábyrg efnahagsstjórn og alveg sama hversu oft söngurinn um stöðugleika verður sunginn hér þá er hann í engu samræmi við þær þarfir sem liggja fyrir.

Við í Samfylkingunni höfum lagt til nokkrar breytingar til að styrkja tekjugrunn ríkisins til að hægt sé að skila meiri afgangi, frú forseti, og styrkja félagslegar stoðir og auka jöfnuð. Við þurfum að tryggja að enginn sé skilinn eftir og allir fái að njóta þeirra góðu ára sem við búum við.

Það er auðvelt að afla tekna með því að auka tekjujöfnun í skattkerfinu og taka upp markaðstengd auðlindagjöld í sjávarútvegi, eins og hæstv. fjármálaráðherra talaði reyndar mjög fyrir fyrir kosningar. Þegar fjármálaáætlun var kynnt voru stóru fyrirsagnirnar um 20% aukningu til heilbrigðiskerfisins. Þar gleymdist að vísu að segja frá því í leiðinni að stærstur hluti þeirrar aukningar væri bygging nýs Landspítala.

Við fögnum því að sjálfsögðu að byggja eigi nýjan spítala, en hverjum hefði dottið í hug fyrir kosningar að samhliða þeirri byggingu ætti að skera niður í þjónustu á sjúkrahúsum jafnt á landsbyggðinni og á Landspítalanum? Sú viðbót sem er ætluð til spítalanna í fjármálaáætluninni nægir ekki einu sinni til að mæta fjölgun sjúklinga, hvað þá að hún dugi til að vinna á biðlistum eða fyrir nauðsynlegum tækjakaupum eða viðhaldi. Þetta þýðir með öðrum orðum niðurskurð í heilbrigðiskerfinu.

Fjárhagslegur ávinningur af styttingu framhaldsskóla er hrifsaður úr höndum skólans. Þar verða tekin fleiri hundruð milljóna á næstu árum og aðgerð sem átti að bæta skólastarfið sýnir sig að vera hrein og klár sparnaðaraðgerð. Það er ömurlegt metnaðarleysi, frú forseti. Við verðum áfram hálfdrættingar á við hin Norðurlöndin þegar kemur að framlögum á hvern háskólanemanda. Þetta er þvert á markaða stefnu sem var unnin í samstarfi við háskólasamfélagið og birtist hjá Vísinda- og tækniráði sem ríkisstjórnin á nú einhverja aðkomu að.

Í fjármálaáætluninni er heldur ekki að finna neina trúverðuga leið að því hvernig eigi að bæta kjör fjölmennra stétta á opinberum markaði, stétta sem eru fyrst og fremst kvennastéttir — hjúkrun, kennsla, mikilvæg störf í framtíðinni. Þrátt fyrir að gert hafi verið samkomulag í september á síðasta ári, í aðdraganda nýrra laga um lífeyrisréttindi, þar sem það er beinlínis viðurkennt af hálfu ráðherra að leiðrétta verði þessi kjör og jafna þau til samræmis við það sem gerist almennt á markaði, er ekkert um það.

Í fjármálaáætlun birtast líka kaldar kveðjur til barna og unglinga. Það er enginn metnaður til að bæta menntakerfið eða til að búa samfélagið undir þær gríðarlegu breytingar sem við eigum í vændum. Það eru engin alvöruáform um að bæta stöðu ungs fólks á húsnæðismarkaði þó að ráðherra ríkisstjórnarinnar hafi sjálfur lýst yfir neyðarástandi á þeim markaði fyrir nokkrum vikum og boðað og skipað neyðarhóp sem átti að skila innan mánaðar og ekkert hefur heyrst frá honum.

Samfylkingin leggur fram einfalda tillögu til lausnar sem dugar ekki til en hjálpar. Við byggjum 1.000 íbúðir inn í almenna leiguíbúðakerfið í samstarfi við verkalýðshreyfinguna og losum nú fólk úr fátæktargildrum leigumarkaðarins.

Það er ekki nóg til að bæta stöðu ungs fólks og foreldra. Við þurfum að muna að hér á landi búa yfir 6.000 börn við skort. Við þurfum því að styrkja kerfin sem styðja þessa hópa. En nýja ríkisstjórnin heldur áfram á vegferð þeirrar eldri að draga úr umfangi þessara skilvirku tækja til að berjast gegn fátækt og tryggja fólki öruggt þak yfir höfuðið. Hér á ég við barnabætur og vaxtabætur. Fjárhæðir til samgöngumála og löggæslu geta ekki mætt á neinn hátt uppsafnaðri þörf og svo mætti lengi telja.

Samandregið ræður ríkisstjórnin ekki við að fjármagna góða almannaþjónustu eða þá að hún hefur ekki áhuga á því. Það finnst mér þurfa að koma fram í umræðunni hvort og hvernig menn líti á hlutverk stjórnvalda þegar kemur að almannaþjónustu, hver hún er og hver eigi að bera hana.

Meiri hluti fjárlaganefndar gefur áætluninni raunar falleinkunn, með leyfi forseta:

„Þessi fjármálaáætlun ber þess merki að nýr meiri hluti hefur ekki haft nægan tíma til að undirbúa og útfæra fjármálaáætlun næstu ára … Langt er í land til að hægt sé að segja að verklag og vinna við hina nýju umgjörð sé ásættanleg … Ríkisstjórnin hefur því haft mjög stuttan tíma til að undirbúa málið og ber það þess nokkur merki, hvort sem horft er til hinnar eiginlegu fjármálaáætlunar eða markmiðssetningar einstakra málefnasviða.“

Ríkisstjórnin ætlar samt sem áður að beygja sig fyrir ógn hrísvandarins og samþykkja áætlunina, en við í minni hlutanum munum væntanlega öll vera á rauða takkanum og hafna þessu, vegna þess að þetta er óboðlegt.