146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[11:28]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Eins og hefur ítrekað komið fram höfum við Píratar beðið um upplýsingar um hagræna flokkun á þessari fjármálaáætlun samkvæmt lögum um opinber fjármál. Nauðsynlegt er jafnframt að eyða þeirri óvissu sem stofnanir hafa gagnvart fjármálaáætluninni, eins og kemur fram í fjölda umsagna um málið.

Það kom síðan fram síðastliðinn föstudag að upplýsingar þær sem við þingmenn Pírata höfum ítrekað verið að kalla eftir, munnlega, skriflega og í nefndum, eru hreinlega ekki til samkvæmt fjármálaráðuneytinu. Þetta kom sem sagt fram á fundi sem hv. þingmaður Pírata, Björn Leví Gunnarsson, átti með fulltrúa úr fjármálaráðuneytinu. Við vorum að reyna að komast að því fyrir þinglok hvort hægt væri að fá svör við þeim skriflegu fyrirspurnum sem hv. þingmenn Pírata, Björn Leví Gunnarsson og Jón Þór Ólafsson, höfðu lagt fram.

Það sem kom fram á þeim fundi olli okkur miklum áhyggjum, en fram kom að þessi fjárlög hér byggja í fyrsta lagi ekki á lögum um opinber fjármál við gerð fjármálaáætlunar og þessi fjármálaáætlun byggir einvörðungu á fjárlögum fyrir árið 2017, plús mínus einhverjir hagrænir þættir. Það sem stendur út af er óútskýrt. Það er ekki hægt að fá upplýsingar um af hverju upphæð á einhverju málefnasviði er fengin. Við höfum áhyggjur af því og eiginlega ekki hægt að útskýra á annan hátt en að hreinlega sé slumpað á þessar upphæðir og verður að segjast eins og er að það eru ekki fagleg vinnubrögð undir neinum skilgreiningum og útskýrir kannski vinnubrögðin, alla þessa skallabletti og gleymdu málaflokka sem falla undir fjárlög alla jafna.

Ekki er hægt að segja annað en hér sé verið að fremja lögbrot, því að það kemur mjög skýrt fram í lögum um fjárlagagerð að þau verði að fara fram, gerð þeirra, út frá ákveðnum forsendum. Það á ekki við núna.

Eins og fram hefur komið ríkir mikil óvissa meðal stofnana og annarra sem venjubundið er á fjárlögum. Í raun og veru hefur þessi fjármálaáætlun sett samfélagið í uppnám, en ég hélt að svona rammi ætti að virka á allt annan veg, það ætti að skapa ákveðna sýn og hægt væri að skipuleggja sig út frá þeirri stefnu sem lýst er í svona ramma.

Það er vert að hrósa þegar vel er gert. Mér finnst gott hjá bæði formanni fjárlaganefndar sem og hæstv. fjármálaráðherra að viðurkenna að þessi fjármálaáætlun er, eins og hv. formaður fjárlaganefndar nefndi í andsvari við mig, ákveðið rennsli á framsetningunni. Þegar frumsýningin verður, sem verður væntanlega næst þegar við fáum fjármálaáætlun, þá er hægt að taka mið og taka það af alvöru því að ekki er hægt að taka mark á rennslinu eða generalprufunni, eins og kom fram að þetta væri samkvæmt orðum formanns fjárlaganefndar.

Mér fannst mjög gagnlegt að ræða við hæstv. fjármálaráðherra og heyra að hann er tilbúinn að bregðast við þeirri kröfu sem kemur frá Pírötum og fleiri þingmönnum, meira að segja þingmönnum úr meiri hlutanum, um að lýsa því yfir að farið verði að ábendingum sem hafa komið núna úr þessu ferli og þetta hefur verið mjög gagnlegt ferli.

Sem generalprufa hefur þetta verið mjög gagnlegt ferli. Sem rennsli hefur þetta verið mjög gagnlegt ferli, því að komið hafa fram mjög miklir gallar. Það gleður mig að hæstv. fjármálaráðherra ætli að bregðast við þessum ábendingum. Ég hlakka til að heyra ræðu hans hér á eftir til að sjá hversu alvarlega hæstv. ráðherra tekur þær ábendingar sem hafa komið fram, m.a. frá fjármálaráði.

Ég bíð því spennt og vona að fleiri í samfélaginu átti sig á því hvað það er mikilvægt að þetta sé gert rétt frá grunni, ekki sé slumpað á þær fjárhæðir og þá stefnu sem við þurfum að búa við næstu fimm ár ef vel á að vera.