146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[11:39]
Horfa

Theodóra S. Þorsteinsdóttir (Bf):

Frú forseti. Ég vil byrja á að taka undir allt það sem hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson nefndi fyrr í umræðunni um ferðaþjónustu og ætla svo sem ekkert að bæta neinu við þar. Ég tek bara undir nákvæmlega það sjónarmið sem við höfum ítrekað rætt í fjárlaganefnd. Við erum að ræða fjármálaáætlun. Umræðan síðustu dagana hefur verið gagnleg, ég tek undir það, finnst reyndar stundum eins og við séum hvert um sig að lesa sína áætlunina.

Það sem við erum sammála um og hefur komið fram er að við eigum töluvert langt í land við að móta verklag við gerð þessarar áætlunar, hvernig við setjum fram tölulegar upplýsingar eins og til dæmis að blanda ekki saman fjárfestingum og rekstri. Það kemur fram í umsögn fjármálaráðs að gegnsæið er ekki nógu mikið. Við þurfum að bregðast við þeirri umsögn. Við þurfum öll að punkta vel hjá okkur þær úrbætur sem við viljum ná fram svo að við getum verið betur samstiga í umræðunni og skilningur að hugmyndafræði þessarar langtímaáætlunar geti verið sá sami.

Mér finnst mikilvægt að allar fastanefndir tóku til við að greina þá málaflokka sem undir þær falla og gáfu áætluninni þannig umsögn sína. Það er gott verklag.

Við í Bjartri framtíð erum sátt við þá aukningu sem verið er að leggja til í mikilvæga málaflokka. Hins vegar kemst ég ekki hjá því að nefna að ég átta mig ekki alveg á umræðu um einkarekstur og einkavæðingu. Slíkur ásetningur og slík umræða hefur ekki farið fram í þingflokksherbergi Bjartrar framtíðar. Við erum miklu frekar að reyna að greina þann einkarekstur sem hefur orðið að veruleika á undanförnum árum. Ásetningur Bjartrar framtíðar er að skerpa á lagaumhverfinu í kringum þær heimildir sem hafa verið óljósar og skerpa á stefnumótun og þess háttar.

Ég vil hnykkja á nokkrum staðreyndum sem mér finnst mikilvægar í þessari fjármálaáætlun. Við erum að auka langmest ríkisútgjöld til velferðar- og heilbrigðismála og til málefna aldraðra og öryrkja. Hækkun til heilbrigðismála á tíma áætlunar frá fjárlögum 2017 eru 42 milljarðar kr. á ársgrundvelli, sem er 22,5% hækkun. Hækkun til velferðarmála á sama tíma eru 28 milljarðar, sem er 15% hækkun. Þannig eykst hækkun á málefnasviði lyfja og lækningavara um 54% á fimm ára tímabili áætlunarinnar og er það hlutfallslega langmesta hækkunin sem finnst í þessari áætlun. Þetta eru forgangsmál ríkisstjórnarinnar enda er veruleg þörf á uppbyggingu í þessum mikilvægu grunnstoðum samfélagsins.

Mig langar til að nefna hér örstutt að í áliti meiri hluta fjárlaganefndar er skorað á heilbrigðisráðherra að skoða kosti þess að setja á laggirnar sérstaka stjórn yfir starfsemi spítalans. Það er hugmynd sem við leggjum fram til umræðu. Aldrei hefur komið fram sérstaklega að sú stjórn sé pólitísk stjórn eins og einhverjir hafa verið að nefna hér í umræðunni, ég sé miklu frekar fyrir mér að það séu sérfræðingar á sviði rekstrar. Ég vona að við náum að fóta okkur vel í þessari umræðu og hún verði málefnaleg og komist að góðri niðurstöðu um það.

Að lokum vil ég nefna að það komu fram nokkrir punktar í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar. Annars vegar ábendingar um uppbyggingu og framsetningu áætlunar og hins vegar punktar sem við vekjum sérstaka athygli á. Margir þessir punktar komu fram hjá umsagnaraðilum og eiga við um einstök málefnasvið. Mér finnst mikilvægt að leggja áherslu á að meiri hlutinn er að samþykkja þennan ramma um upphæð tekna og gjalda. Hins vegar leggjum við fram og tökum undir nokkrar umsagnir, ábendingar til úrbóta og ábendingar til umræðu. Við erum ekki að gefa þessari fjármálaáætlun falleinkunn, þvert á móti. Við erum að samþykkja hana. Enda sýnir hún að við erum að stíga varlega til jarðar og vinna gegn þenslu en um leið erum við að staðfesta útgjaldaaukningu.