146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

meðferð sakamála.

374. mál
[11:54]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Pawel Bartoszek) (V):

Virðulegi forseti. Hér er um að ræða frumvarp sem mun gera það kleift að ganga frá ýmsum minni háttar málum sem leyst eru með lögreglusátt með rafrænni undirskrift. Í 2. umr. kom fram að í umsögn Persónuverndar væri bent á tvö atriði sem betur mættu fara. Í fyrsta lagi að skýrt yrði kveðið á um að þegar rætt er um að heimilt sé að afhenda skýrslu rafrænt verði tekið skýrt fram að heimilt sé að afhenda hana sakborningi en ekki einhverjum öðrum. Í öðru lagi, þar sem í greininni segir að ráðherra geti kveðið nánar á um framkvæmd rafrænnar undirskriftar og afhendingar skýrslu í reglugerð, þarf að standa „skal kveða“. Ráðherra er ekki einungis heimilt heldur er það beinlínis skylda hans að kveða nánar á um þessi mál í reglugerð. Að þessari breytingartillögu stendur öll allsherjar- og menntamálanefnd.