146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

392. mál
[12:08]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að hvati yngri nemenda til að fara í aðfaranám sé nú þegar til staðar eins og kom fram, að mig minnir bæði hjá Ríkisendurskoðun og skólastjórnendum sem komu fyrir nefndina, að væri stundum reyndin, að fólk alveg niður í 18 ára væri að sækja sér aðfaranám þrátt fyrir að það væri á þeim aldri sem eðlilegra væri að það færi beint í opinbera framhaldsskólakerfið.

Meðan við erum með tvö kerfi sem skarast þá þarf að finna milliveg til að ekki sé verið að brjóta jafnræði milli fólks. Eitt af því sem mér þykir skoðunar virði er að endurskilgreina aðfaranámið þannig að því ljúki með stúdentsprófi, af því að inntak aðfaranámsins í dag er allt sem stúdentspróf er fyrir utan það að vera stúdentspróf. Ég held að heiðarlegra væri að endurskilgreina aðfaranámið þannig að það uppfyllti sömu gæðakröfur og skilaði nemendum sömu þekkingu og stúdentspróf, en væri með þessu svigrúmi sem aðfaranámið hefur, sérstaklega gagnvart eldri nemendum sem þurfa stuðning vegna framfærslu.