146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

umferðarlög.

307. mál
[12:11]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Pawel Bartoszek) (V):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti með breytingartillögu frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar. Eftir að málið var afgreitt hér að lokinni 2. umr. komu fram sjónarmið, bæði frá ráðuneyti og þeim aðilum sem sjá munu um innheimtuna, þ.e. sveitarfélögunum, að betra væri að gefa færi á að liðka fyrir gjaldtökunni með þeim hætti að ekki þyrfti að leggja gjaldið á með því að festa það við bílrúðu heldur dygði að senda tilkynningu með öðrum hætti, t.d. með því að senda tölvupóst eða eitthvað þannig. Það er það sem breytingartillagan gengur út á. Ég ætla að lesa hana.

„Á eftir a-lið 2. gr. komi nýr stafliður, svohljóðandi: 2. mgr. orðast svo:

Gjaldið skal lagt á með skriflegri tilkynningu sem fest skal við ökutækið, afhent ökumanni eða send með sannanlegum hætti til eiganda eða umráðamanns ökutækis.“

Þarna er sem sagt verið að liðka fyrir að hægt sé að leggja á stöðugjald með fjölbreyttari hætti en nú er gert

Undir þetta rita Valgerður Gunnarsdóttir, formaður, Pawel Bartoszek, framsögumaður, Ásmundur Friðriksson, Bryndís Haraldsdóttir, Einar Brynjólfsson, Líneik Anna Sævarsdóttir og Teitur Björn Einarsson.

Ásmundur Friðriksson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álitið samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda Alþingis.