146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

umferðarlög.

307. mál
[12:13]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni og framsögumanni málsins fyrir yfirlit hans. Ég kom hér upp til að árétta skoðun okkar fulltrúa Vinstri grænna í nefndinni sem birtist í séráliti okkar með þessu máli. Við leggjumst ekki gegn málinu og styðjum framgang þess en áréttuðum þá skoðun að það væri mjög nauðsynlegt að ekki væri litið á samþykkt þessa máls þannig að búið væri að finna fyrirkomulag varðandi fjármagn til sveitarfélaganna til uppbyggingar á ferðamannastöðum.

Sveitarfélögin þurfa mjög á að halda hlutdeild í þeim virðisauka sem aukin ferðaþjónusta hefur skapað. Bílastæðagjöld, eins og hér er kveðið á um, eru þjónustugjöld. Um þjónustugjöld gilda sérstakar reglur, þ.e. í hvað má nota þau. Í þessu máli er það aðeins útvíkkað og tilgreint í hvað má nota þau þannig að það er á engan hátt búið að uppfylla fjárþörf sveitarfélaganna vegna aukins fjölda ferðafólks.

Það er því mjög mikilvægt að þetta sé aðeins hugsað sem skref í þá átt að skoða betur fjármögnun varðandi ferðaþjónustuna. Við í Vinstri grænum höfum talað fyrir komugjöldum og að þeim sé skipt á sanngjarnan máta. Við höfum talað fyrir hækkun gistináttagjalds sem fari til sveitarfélaganna. En fyrst og fremst höfum við talað fyrir heildrænni og samræmdri stefnu er kemur að gjaldtöku í ferðaþjónustunni. Þau gjöld sem hér er verið að veita heimild til að leggja á mega heldur ekki vera einhvers konar inngöngugjald á náttúrusvæði. Það er allt önnur umræða hvort rukka eigi inn á náttúrusvæði og það er ýmislegt í þessu máli sem þyrfti að reifa betur, t.d. hvernig gjaldið verður sett upp. Verður ódýrara á bílastæði sem þegar er búið að reisa? Það má ekki nota gjöld sem rukkuð eru í dag til að borga kostnað sem þegar hefur fallið til. Ekki þjónustugjöld. Mun gjaldið lækka þegar stofnkostnaður hefur verið greiddur að fullu og aðeins rekstrarkostnaður eftir? Ýmsum slíkum spurningum er ósvarað sem ég treysti að tekið verði tillit til í framtíðinni. Hins vegar leggjumst við ekki gegn þessu og teljum að sveitarfélögin eigi að fá þessa heimild. Ég vildi aðeins árétta þá skoðun okkar fulltrúa Vinstri grænna í nefndinni í þessu máli.