146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

umferðarlög.

307. mál
[12:18]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þessa spurningu. Hún gefur færi á að ræða almenna pólitík sem við gerum kannski of sjaldan og týnum okkur í einhverju öðru. Ég held að ég sé í grunninn hjartanlega sammála þingmanni. Hafi annað komið fram í máli mínu hefur annaðhvort hv. þingmaður misskilið mig eða ég ekki komið því rétt út úr mér. Ég er hrifinn af bílastæðagjöldum. Ég er svo hrifinn af bílastæðagjöldum að ég tel t.d. að í þéttbýli þurfi verulega að huga að því að raunverulegur kostnaður við bílastæði sé metinn og það séu notendur þeirra sem greiði fyrir þau.

Ég hef aldrei skilið af hverju stofnanir bjóða upp á ókeypis bílastæði, af hverju t.d. háskólar bjóða upp á ókeypis bílastæði, því að kostnaðurinn við bílastæði er gríðarlega mikill. Það sem ég á við með þessu, þegar ég segi að það megi ekki skoða bílastæðagjöld sem aðgangsstýringu á svæðum, er að sú umræða er miklu stærri. Hvort við ætlum að stýra inn á svæði, til að mynda rukka inn á svæði, þá í formi bílastæðagjalda, og maður kemst ekki inn á svæðið nema maður greiði aðgangseyri, er bara miklu stærri umræða sem fara þarf fram og ekki í tengslum við umræðu um heimild til sveitarfélaga til að setja á bílastæðagjöld. Það getur vel verið að niðurstaðan af slíkri umræðu yrði einhvers konar gjald. Ég ætla ekki að segja hver hún yrði. Sjálfur er ég mjög vaklandi gagnvart því hvort hægt sé að rukka fólk fyrir að skoða landið sitt. En ég skil hugmyndafræðina þar á bakvið. Ég skil nauðsynina sem slíkar hugmyndir spretta upp úr. Ég er til í umræðu um það en ekki undir máli sem veitir sveitarfélögum heimild til að (Forseti hringir.) rukka inn bílastæðagjöld. Það er það sem ég átti við.