146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

skortsala og skuldatryggingar.

386. mál
[12:44]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Brynjar Níelsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar með breytingartillögu. Hér er um að ræða innleiðingarmál. Gerðar eru örlitlar breytingartillögur sem snúa aðallega að áferð, en í 1. mgr. 2. gr. frumvarpsins er lagt til að reglugerð ESB nr. 236/2012, um skortsölu og tiltekna þætti skuldatrygginga, fái lagagildi með aðlögunum samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar. Í 2. mgr. sömu greinar er lagt til að ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar skuli jafnframt hafa lagagildi. Að mati nefndarinnar er nægjanlegt að reglugerðin með aðlögunum samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar fái lagagildi en óþarft að lögfesta ákvörðunina í heild sinni. Nefndin leggur því til að 2. mgr. 2. gr. frumvarpsins falli brott en að vísun málsgreinarinnar til EES-viðbætis við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins færist í 1. mgr. greinarinnar.

Síðan leggur nefndin til að vísanir til reglugerðar ESB nr. 236/2012 í töluliðum 1. mgr. 6. gr. og 10. gr. færist í inngangsmálsliði ákvæðanna til að einfalda framsetningu þeirra.

Svo er minni háttar breyting sem snýr að því að fella burt skammstöfunina „m.a.“ við ákvörðun sektanna.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem koma fram í álitinu.

Undir þetta rita nefndarmenn allir, hv. þingmenn Óli Björn Kárason, formaður, Brynjar Níelsson, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Jón Steindór Valdimarsson, Katrín Jakobsdóttir, með fyrirvara. Lilja Alfreðsdóttir, Vilhjálmur Bjarnason. Rósa Björk Brynjólfsdóttir, með fyrirvara, og Smári McCarthy, með fyrirvara.