146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

vátryggingasamstæður.

400. mál
[12:47]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um vátryggingasamstæður.

Nefndin fékk á sinn fund fulltrúa fjármála- og efnahagsráðuneytis. Sömuleiðis bárust umsagnir frá Fjármálaeftirlitinu og Samtökum fjármálafyrirtækja.

Frumvarpið er byggt á tilskipun 2009/138/EB („Solvency II“), um stofnun og rekstur fyrirtækja á sviði vátrygginga og endurtrygginga, ásamt breytingum á henni með tilskipun 2014/51/ESB („Omnibus II“). Tilskipun 2009/138/EB var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 78/2011 1. júlí 2011. Tilskipun 2014/51/ESB hefur ekki verið tekin upp í EES-samninginn. Meginefni tilskipunarinnar var lögfest hér á landi með lögum um vátryggingastarfsemi, nr. 100/2016. Tilskipunin inniheldur ákvæði um vátryggingasamstæður. Markmið tilskipunarinnar er að samræma lagaumhverfi fyrir starfsemi vátryggingafélaga og þar með vátryggingasamstæðna á Evrópska efnahagssvæðinu, bæta neytendavernd og tryggja fjárhagslegan stöðugleika. Uppsetning frumvarpsins fylgir að mestu leyti uppsetningu tilskipunarinnar.

Meginmarkmið frumvarpsins er að vernda hagsmuni vátryggingartaka og vátryggðra. Til að draga úr líkum á því að vátryggingafélag lendi í fjárhagslegum erfiðleikum eru gerðar auknar kröfur til stjórnarhátta, áhættustýringar og upplýsingagjafar auk þess sem gjaldþolskröfur eru áhættumiðaðar. Þá er með auknum heimildum og kröfum til Fjármálaeftirlitisins reynt að tryggja að fylgst verði með þeim áhættuþáttum sem áhrif hafa á starfsemi vátryggingafélaga og stöðugleika á fjármálamarkaði.

Í frumvarpinu eru ítarleg ákvæði um uppbyggingu vátryggingasamstæðna, mat á gjaldþolsstöðu þeirra og eftirlit auk ákvæða um eftirlitsaðgerðir Fjármálaeftirlitsins. Enn fremur eru þar ítarleg ákvæði um áhættustýringu, eftirlitsferli, upplýsingagjöf og gjaldþolsliði. Þá er að finna ákvæði um auknar eftirlitsheimildir Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar (EIOPA). Valdheimildir verða hjá Fjármálaeftirlitinu og Eftirlitsstofnun EFTA. Á fundum nefndarinnar var meðal annars rætt um verkaskiptingu þessara eftirlitsstofnana þegar kemur að vátryggingasamstæðum. Í fyrirliggjandi frumvarpi er vísað til laga um viðbótareftirlit með fjármálasamsteypum en frumvarp þess efnis er einnig til meðferðar í nefndinni (111. mál). Meiri hlutinn áréttar því mikilvægi þess að frumvörpin verði að lögum samhliða svo að skýrleiki laga sé tryggður.

Fyrir nefndinni kom fram ábending um að efni tilskipunarinnar hefði verið skipt upp, annars vegar með lögum um vátryggingastarfsemi og hins vegar með frumvarpi þessu, og því væri nauðsynlegt að vísa í frumvarpinu til orðskýringa í lögum um vátryggingastarfsemi þar sem þeim sleppti. Með þeirri tilvísun væri hægt að fella brott skilgreiningar sem nú þegar væru í lögum um vátryggingastarfsemi. Meiri hlutinn tekur undir þau sjónarmið og leggur til breytingar í þá veru.

Fyrir nefndinni komu einnig fram sjónarmið þess efnis að veita ætti ráðherra heimild til að vísa til birtingar á reglugerð 2015/35/ESB á ensku í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins og að veita ætti Fjármálaeftirlitinu heimild við setningu reglna sem byggjast á tæknilegum stöðlum að vísa til birtingar þeirra á ensku í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins, enda útfærði reglugerðin og tæknilegir staðlar nánar ákvæði tilskipunarinnar. Þá var bent á mikilvægi þess að slíkar heimildir yrðu einnig í lögum um vátryggingastarfsemi.

Meiri hlutinn tekur fram að samkvæmt lögum um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, skal birta í Stjórnartíðindum öll lög, stjórnvaldsfyrirmæli og samninga við önnur ríki, svo og auglýsingar varðandi gildi þeirra, sbr. 1. mgr. 1. gr. laganna. Þá leggur meiri hlutinn áherslu á að þingmálið er íslenska og er hin óskráða meginregla að allur texti Stjórnartíðinda sé á íslensku, þótt finna megi undantekningar í lögum um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, sbr. 2. mgr. 4. gr. laganna. Frávikum frá þeirri reglu skal því beita af varfærni. Meiri hlutinn leggur því ekki til breytingar þess efnis og áréttar mikilvægi þess að lög og reglur séu skýr og aðgengileg. Til að svo megi vera þarf birting þeirra að vera með lögbundnum hætti og á íslensku.

Til viðbótar við framangreindar breytingartillögur leggur meiri hlutinn til nokkrar breytingar sem snúa að lagfæringum á málfari, orðavali eða augljóslega röngum tilvísunum. Þá eru lagðar til breytingar til að skýra nokkur ákvæði betur. Þær breytingartillögur þarfnast ekki frekari skýringa.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali. Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Smári McCarthy voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Virðulegi forseti. Frumvarpi þessu fylgja breytingartillögur á þingskjali nr. 916. Þær eru í 24 liðum og ég ætla ekki að tíunda þær frekar, þær liggja fyrir í þingskjali og eru óaðskiljanlegur hluti af þessu nefndaráliti.

Undir nefndarálitið rita þann 24. maí 2017 hv. þingmenn Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, Vilhjálmur Bjarnason, framsögumaður málsins, Brynjar Níelsson, Jón Steindór Valdimarsson, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Lilja Alfreðsdóttir.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu.