146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

jarðgöng undir Vaðlaheiði.

524. mál
[14:02]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Hanna Katrín Friðriksson) (V):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um heimild til handa ráðherra fyrir hönd ríkissjóðs til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði, lög nr. 48/2012. Efni frumvarpsins lýtur að viðbótarfjármögnun vegna þess verkefnis sem hér um ræðir, eða eins og segir í frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Með frumvarpi þessu er lagt til að heimild til lánveitingar úr ríkissjóði til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði verði aukin um allt að 4,7 milljarða kr. á verðlagi í árslok 2016, sem er sú fjárhæð sem nú er áætlað að þurfi til að ljúka gerð ganganna.“

Fjárlaganefnd hefur fjallað um málið frá því að það gekk til hennar 16. maí síðastliðinn. Fulltrúar fjármála- og efnahagsráðuneytisins, fulltrúar Vaðlaheiðarganga hf. og fulltrúar Ríkisábyrgðasjóðs komu á fund nefndarinnar, fóru yfir málið og svöruðu spurningum nefndarmanna.

Eins og þingheimur og líkast til þjóðin öll þekkir á þetta mál sér nokkuð langa og höktandi forsögu.

Ég ætla ekki að orðlengja þetta frekar en þörf er á en ætla, með leyfi forseta, að lesa upp úr niðurstöðum meirihlutaálitsins. Ég vil fyrst nefna að samkvæmt upplýsingum frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu hefur þegar verið hafin samantekt á skýrslu um aðdraganda og undirbúning þessarar framkvæmdar allrar. Það er samdóma álit nefndarinnar að þá skýrslu verði nauðsynlegt að taka til rækilegrar rýni, umræðu, á vettvangi Alþingis.

Í niðurstöðu meirihlutaálitsins segir, með leyfi forseta:

„Með samþykkt frumvarpsins yrðu því fyrst og fremst varðir hagsmunir ríkissjóðs sem lánveitanda og tryggt að framkvæmdinni verði lokið og göngin komist í notkun. Meiri hlutinn tekur ekki afstöðu til framhalds á fyrirkomulagi lánveitingar og eignarhaldi, en bendir á að óhjákvæmilegt gæti reynst að fjármagna hluta af framkvæmdaláninu með beinni fjárveitingu úr ríkissjóði þegar kemur að endurfjármögnun.

Meiri hlutinn telur nauðsynlegt að þegar framtíðarfyrirkomulag fjármögnunar verður ákveðið komi til kasta Alþingis og lagt verði fram sérstakt lagafrumvarp um hana sem að öllu óbreyttu verður árið 2021 þegar kemur að endurfjármögnun framkvæmdalánsins.“

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt.

Undir þetta álit rita Haraldur Benediktsson, formaður, og Hanna Katrín Friðriksson, varaformaður. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álit þetta samkvæmt 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir alþingis. Lilja Alfreðsdóttir, Njáll Trausti Friðbertsson, Páll Magnússon, Oddný G. Harðardóttir og Theodóra S. Þorsteinsdóttir rita einnig undir álitið.