146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

jarðgöng undir Vaðlaheiði.

524. mál
[14:29]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Spurðu alla þá sem voru með framkvæmdir á samgönguáætlun, sem voru ofar þessari framkvæmd þegar henni var kippt fram fyrir, hvort þeim finnist sín framkvæmd ekki líka rosalega mikilvæg og nauðsynleg. Að sjálfsögðu eru allar framkvæmdir sem fjallað er um þar mjög mikilvægar, en við forgangsröðum. Þarna ákvað Alþingi að kippa einni framkvæmd fram fyrir á listanum út af ákveðnum gefnum forsendum sem allir vissu að myndu ekki standast. Það hefur ræst að þær stóðust ekki og nú ætlum við að fara að kvitta undir það aftur.

Það eru aðrar leiðir til að leysa þetta mál. Eins og ég sagði í upphafi ræðunnar er fráleitt að skilja eftir gat í göngunum og gera ekki neitt meira við það, að sjálfsögðu klárum við þetta. En við gerum það á ábyrgan hátt, sem fylgir lögum, reglum og faglegu ferli.