146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

jarðgöng undir Vaðlaheiði.

524. mál
[14:33]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég kveð mér hljóðs um þetta mál sem er, og það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni sem talaði á undan mér, erfitt og umdeilt og með þeim umdeildari í samgönguframkvæmdum undanfarinna ára. Ég held að óhætt sé að segja það. Það er hægt að taka undir að gagnrýnivert sé hvernig að því var staðið á sínum tíma. Ég hef ekki skorast undan því að halda því fram að svo sé, þ.e. hvernig tilurð þessa máls var. En það breytir því þó ekki að hér erum við komin í þessa stöðu.

Mér finnst hv. þingmaður bera svolítið alvarlega hluti á borð og hef áhyggjur af því ef allt stjórnkerfið tekur undir það að við göngum ekki á svig við lögin, eins og þingmaðurinn heldur fram. Ríkisábyrgðasjóður hefur ekki sagt að verið sé að brjóta lög um ríkisábyrgðir, eins og hv. þingmaður segir. Það er niðurstaða hans og túlkun á þeim gögnum sem fyrir liggja en það kemur ekki skýrt fram í textanum af hálfu Ríkisábyrgðasjóðs sem mælir vissulega með því í ljósi stöðunnar að við gerum þetta. Ríkisábyrgðasjóður segir líka að það megi skoða eignarhaldið og annað slíkt. Það var ákveðið af hálfu ráðherra að gera það ekki. Við getum gagnrýnt það, hvort það sé skynsamlegra að ríkissjóður eigi meiri hluta í framkvæmdinni í ljósi þess að það fjármagnar hana að öllu leyti, nánast a.m.k. og áhættan eins og rakið er í umsögn Ríkisábyrgðasjóðs.

Það kemur líka fram, sem styður kannski það að ríkið eignist meiri hluta í göngunum, að skynsamlegra sé að endurfjármagna gamla lánið því að það geti orðið til þess að greiðslufallið verður nánast ekki neitt, það verði mjög lítið ef lánið er endurfjármagnað miðað við þau kjör sem eru í boði í dag. Það fer mjög mikið niður. Er alla vega ekki 22% eins og staðan er í dag.

Ég veit það vel að ég og hv. þingmaður munum aldrei geta komist að sameiginlegri niðurstöðu í túlkun á því sem fyrir okkur liggur. Það er allt í lagi og verður bara svoleiðis. Ég hef alla vega kosið að lesa öðruvísi úr niðurstöðu Ríkisábyrgðasjóðs, eins og flestir virðast gera. En mér finnst það samt áhyggjuefni. Við fáum fund á morgun um málið þar sem við fáum svör við fleiri spurningum sem hafa verið á borð bornar. Ég held að það sé mjög gott. Eins og kom fram í ræðu ráðherrans þegar hann mælti fyrir málinu ætlar hann að láta skoða málið frá upphafi til enda. Ég er ekki sammála því að það sé eitthvert yfirklór, eins og hér kemur fram, eða gagnslaust, alls ekki. Ég held að það sé eitthvað sem við eigum að læra af. Ef okkur mistekst einhvers staðar eða teljum að svo hafi verið eigum við að fara yfir það, bara til að geta sett niður á blað nákvæmlega hvað.

Mér fannst líka áhugaverð sú fullyrðing að öllum undirbúningsrannsóknum hafi verið ábótavant. Ef við horfum til þess hvernig hefur verið hjá okkur í gangagerð fram til þessa þá hefur ýmislegt komið upp á. Vissulega er þetta stærsta frávikið, fram hjá því verður ekki litið að þetta er langstærsta frávikið. Umsjónarmaður verkkaupa, sem hefur reynslu af gangagerð til 30 ára hér á landi, hefur sagt að hann hafi aldrei lent í eins mörgum atvikum í jarðgangagerð á starfsævi sinni þar sem nánast allt hafi komið upp á.

Við megum ekki gleyma því að Vegagerðin sér um þetta verkefni og stjórnaði því eins og með öll önnur verkefni. Við þekkjum þau frávik sem komu upp þarna, mikið innrennsli af heitu vatni, mikill hiti, mikil bergþétting sem var samfelld, stórt hrun úr misgengissprungu og svo þetta með kalda vatnið sem kom í kjölfar hrunsins. Þegar við horfum á gangagerð á Íslandi hefur kannski eitt til tvennt af þessu komið upp. Í Héðinsfjarðargöngum kom upp mikið vatnsrennsli, eins og við munum eftir. Það kom líka fyrir með setlögin í bæði Norðfjarðar- og Bolungarvíkurgöngum o.s.frv. Það hefur ýmislegt komið upp á. En mér fannst það áhugavert í ljósi þess að því hefur oft verið haldið fram í pontu og sagt er í nefndarálitinu að undirbúningur hafi ekki verið nægur. Sumir hafa haldið því fram að fleiri rannsóknir hefðu leitt þetta í ljós, aðrir segja að svo sé ekki.

Á dögunum sáum við jarðgangagerð í Noregi, Mælifellsgöngin í Þelamörk, þar sem norskir jarðgangamenn upplifðu í fyrsta sinn gríðarlegan leka. Þeir hafa aldrei upplifað slíkt áður. Ég held að það hafi ekki verið illa að því staðið eða illa rannsakað. Sumt er bara ekki hægt að sjá fyrir. Þar er skandinavíska verktakafyrirtækið NCC að grafa. Verið er að búa til göng sem eru sambærileg að stærð og þau sem við erum að tala um, í kringum sjö kílómetrar, sjö og hálfur. Það voru í kringum 3.000 lítrar á mínútu sem láku þar út. Auðvitað miklu meira í Vaðlaheiðargöngum, vissulega. Þar hefur orðið seinkun. Það var í sjálfu sér gleðilegt að þeim tókst að koma í veg fyrir lekann um það leyti sem sprengt var í gegnum Vaðlaheiðargöngin. Þetta virðist koma upp víðar en hjá okkur og þarna erum við að tala um fyrirtæki og aðstæður þar sem við þekkjum að eru göng úti um allt.

Ég vil ekki endilega líta svo á að illa hafi verið staðið að verkefninu hvað varðar rannsóknir í upphafi. Hvað varðar það hvernig málið komst á dagskrá hef ég ekki dregið dul á að það hefði alveg mátt gera betur, hvernig aðdragandinn var. Slíkt á auðvitað alltaf að fá mikla og góða umfjöllun.

Það sem ég hef líka sagt um þetta og við eigum að hugsa um: Viljum við fara í svona framkvæmdir, þ.e. svona blandaðar framkvæmdir, einkaframkvæmdir með ábyrgð ríkissjóðs o.s.frv. eða hvernig viljum við skoða það? Samgönguráðherra hefur boðað framkvæmdir sem gætu allt eins flokkast undir eitthvað svona. Þá held ég að sé gott að við höfum þessa sögu sem við viljum horfa á og læra af. En ég er ekki viss um að það breyti einhverju um stöðuna núna. Ég skil heldur ekki að fólk geri ráð fyrir að þetta séu peningar í hendi, það er auðvitað tekið lán. Það hefur gjarnan verið þannig við jarðgangagerð að hún hefur verið tekin út fyrir sviga. Hún hefur ekki átt að hafa áhrif á önnur samgönguverkefni í samgönguáætlun. Þess vegna höfum við t.d. verið að fjalla um neikvæða eiginfjárstöðu Vegagerðarinnar, vegna þess að á sínum tíma ákvað einhver að setja þar inn framkvæmdir sem áttu ekki að vera teknar inn í samgönguáætlun. Það getur verið gagnrýnivert, ég ætla ekkert að deila um það. Það getur vel verið að fólki finnist það gagnrýnivert en það hefur hins vegar verið þannig.

Það er heldur ekkert gefið að þeir peningar sem eru teknir að láni og voru teknir að láni á sínum tíma hefðu verið teknir að láni í einhverjar aðrar framkvæmdir eða hefðu alls ekki verið í kassa sem hefði verið hægt að nýta í aðrar framkvæmdir. Mér finnst þess misskilnings gæta að ef það hefði ekki verið farið í þessa framkvæmd hefðu fjármunirnir nýst í eitthvað annað. Það er alls ekkert í hendi. Það finnst mér mikilvægt að við hugleiðum.

Ég get tekið undir margt sem er gagnrýnt hér og hv. þm. Björn Leví Gunnarsson gagnrýnir. Ég tel að við þurfum að skoða margt af því. En ég tel ekki að það gagnist ríkissjóði eða verkefninu að senda þetta til baka og ég tel ekki miðað við fram komin gögn að við séum að brjóta ríkisábyrgðir. En eins og ég sagði áðan vona ég að það komi í ljós í fyrramálið á fundi nefndarinnar ef við förum hér á svig við lög. Ég ætla rétt að vona það því að ekki viljum við telja okkur gera það.

Það er mjög margt í þessu samt sem áður. Þetta eru samgöngubætur sem mér finnst að við eigum að ræða en ekki bara festa okkur í forminu. Umferðaröryggið eykst, ferðatíminn styttist, atvinnu- og þjónustusvæði er að stækka, búsetuskilyrðin verða betri og þetta mun hafa jákvæð áhrif á byggðaþróun. Þetta verður líka til þess að það verður aukið val um búsetu, sem ekki er til staðar í dag. Það verður öruggara aðgengi að heilbrigðisþjónustu en hefur verið. Nú þekkjum við það sem þarna búum að það er ekki ljósmóðir á risastóru svæði, alveg austur á Langanes og norður til Akureyrar. Þetta er m.a. hluti af því að bæta þau skilyrði. Þegar við vorum t.d. að færa heilbrigðisþjónustu til var partur af því að auka umferðaröryggi, og það á víða við. Ég ætla ekki að halda því fram að svo sé ekki. Mér finnst það gleymast svolítið þegar við ræðum formið þótt það sé mjög mikilvægt. Ég ætla ekki að draga úr að það sé mikilvægt

Meiri hluti nefndarinnar hefur líka dregið fram jákvæða punkta, sem þingmaðurinn hefur ekki tekið fram, og farið yfir greiningu ráðgjafafyrirtækisins eins og umsögn Ríkisábyrgðasjóðs. Þar kemur fram að ríkissjóður fær langbestu kjörin. Það er lægri ávöxtunarkrafa en einkaaðilar myndu gera til verkefnisins. Það er líka lagt til að ríkið breyti núverandi framkvæmdarláni í langtímalán með einhverju álagi. Við getum deilt um það hvert álagið á að vera og það að hluta af lögum um Ríkisábyrgðasjóð var kippt úr sambandi á sínum tíma. Það er svoleiðis og það er gagnrýnivert. Ég er alveg sammála því. En svoleiðis er staðan.

Hér er í raun verið að bæta við þessa framkvæmd til þess að klára hana. Ég ætla að taka mark á því sem hér hefur verið sett fram og eins og ég skil það.

Ég ætla ekki að tala lengur, virðulegi forseti, um þetta mál. Þetta er mál sem maður hefði gjarnan viljað að hefði borið að mörgu leyti öðruvísi að. Það er alltaf óvissa í öllum framkvæmdum, sérstaklega jarðgangaframkvæmd. Það er svoleiðis með þetta blessaða land okkar að það er þannig úr garði gert, og ekki bara hér heldur í Noregi líka, að þetta virðist koma upp á þrátt fyrir ítarlegar og góðar rannsóknir. Við getum ekki tryggt okkur fyrir öllum slíkum hlutum, getum ekki ákveðið nákvæmlega hvað við borgum til baka, ekki frekar en, því miður, með húsnæðislánin okkar. Ég vildi gjarnan geta gert það en það er ekki þannig og ég held að við getum ekki tryggt það heldur í þessu.

Við þurfum að læra af þessu ferli, af því hvernig það hefur undið upp á sig. Kannski eru dæmi, þótt ekki séu dæmi um framkvæmd af nákvæmlega þessu tagi, hjá Vegagerðinni sem hafa farið töluvert fram úr áætlun. Það er nokkuð ljóst að við erum með slík verkefni sem ríkissjóður hefur þurft að borga meira fyrir en gert var ráð fyrir í upphafi. Það eru alls konar frávik sem við lendum ítrekað í. En þetta eru auðvitað stórar tölur og ég ætla ekki að gera lítið úr þeim.