146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

jarðgöng undir Vaðlaheiði.

524. mál
[14:54]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður. Þetta eru stór orð, að saka ráðherra um umboðssvik. (Gripið fram í: Ekki mín orð ...) — Ja, hér er verið að nýta sér það sem einhver segir úti í bæ. Það eru að minnsta kosti mjög stór orð að mínu mati, (Gripið fram í.) að segja að þetta séu umboðssvik. Hv. þingmaður ræðir þá væntanlega í fyrramálið við Ríkisendurskoðun hvort hún telji að hér sé um umboðssvik að ræða. Ef það verður niðurstaðan hljótum við að endurskoða stöðuna, ekki satt? Það hefur að mínu mati ekkert komið fram í gögnunum sem við höfum í höndunum sem styður það. En kannski þarf ég að horfa á það aftur á morgun.

Framkvæmdir stöðvast ef ekki liggur fyrir að ríkissjóður ætli að ábyrgjast viðbótarlán. Það voru þau orð sem við fengum að heyra í fjárlaganefnd af hálfu verktaka um þetta mál. Ekki að það þyrfti að vera útborgað á morgun. Það var ekki minn skilningur á þeim gögnum sem við höfum undir höndum. Ég lít alla vega svoleiðis á að það dugi til að lánsvilyrðið sé afgreitt til þess að verktakinn sem þarna er telji sig geta haldið áfram og þurfi ekki að rifta samningum. En ef þingmaður hefur einhverjar aðrar upplýsingar um það væri ágætt að við færum yfir það á nefndinni á morgun.

Þetta er tilefni til að fara vel yfir með hvaða hætti ríkið hagar framkvæmdum sínum. Ég held að það verði gert í ljósi þess þegar við fáum niðurstöðu skýrslunnar sem vinna á í þessu máli.