146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

húsnæðissamvinnufélög.

440. mál
[14:59]
Horfa

Frsm. velfn. (Vilhjálmur Árnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég flyt hér nefndaráliti frá velferðarnefnd um frumvarp til laga um breytingu á lögum um húsnæðissamvinnufélög, nr. 66/2003, með síðari breytingum, um fjármögnun húsnæðissamvinnufélaga.

Nefndin fékk gesti á sinn fund og fór yfir umsagnir.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á 5. gr. laga um húsnæðissamvinnufélög, nr. 66/2003, með síðari breytingum, þannig að húsnæðissamvinnufélögum verði áfram heimilt að taka lán hjá fjármálafyrirtækjum og lánastofnunum ásamt því að taka við styrkjum og framlögum frá samstarfsaðilum en jafnframt verði þeim heimilt að taka lán á almennum markaði auk þess að fjármagna sig með útgáfu skuldabréfa. Þannig munu húsnæðissamvinnufélög fá aukið svigrúm til að velja þá fjármögnun sem að þeirra mati er hagstæðust og hentar best hverju sinni með hagsmuni félagsmanna í fyrirrúmi og að teknu tilliti til þeirrar áhættu sem fylgir fjármögnuninni. Þannig aukast líkur á að rekstur húsnæðissamvinnufélaga verði sjálfbær sem eykur húsnæðisöryggi búseturéttarhafa.

Allir umsagnaraðilar fögnuðu þeirri breytingu sem lögð er til í frumvarpinu. Að framangreindu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Undir það skrifar formaður nefndarinnar Nichole Leigh Mosty, Vilhjálmur Árnason, Birgir Ármannsson, Elsa Lára Arnardóttir, Guðjón S. Brjánsson, Halldóra Mogensen, Hildur Sverrisdóttir, Jóna Sólveig Elínardóttir og Steingrímur J. Sigfússon.