146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar.

378. mál
[17:04]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum nefndarálit með breytingartillögu um tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar. Ég ætla í ræðu minni að nefna nokkra þætti tillögunnar. Það er í fyrsta lagi breytingartillaga þar sem nýr málsliður bætist við 1 mgr. 1. töluliðar um að á meðan á byggingu nýs meðferðarheimilis stendur skuli tryggt að úrræðið uppfylli samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins þannig að unglingar verði ekki vistaðir meðal fullorðinna eða í einangrun, hvort sem um sé að ræða gæsluvarðhald eða afplánun fangelsisdóms.

Það er svo að hv. þingmenn í velferðarnefnd Alþingis hafa fengið upplýsingar um að mikið álag sé nú þegar á þeim meðferðarheimilum sem eru starfandi í dag. Hv. nefndarmenn hafa áhyggjur af því ef ætlunin er að loka einu meðferðarheimili áður en nýtt meðferðarheimili mun opna. Það er mjög mikilvægt að þau úrræði sem eru í boði núna, og þar á ég m.a. við Háholt í Skagafirði, verði nýtt þar til nýtt meðferðarheimili tekur til starfa. Það er mikilvægt að hv. velferðarnefnd ræði þetta mál við hlutaðeigandi aðila, eins og fram kom í máli hv. formanns hv. velferðarnefndar. Óskað hefur verið eftir því að það muni fara fram fundir er varða þetta málefni í hv. velferðarnefnd mjög fljótlega þar sem þetta verður tekið til umræðu og áhyggjum hv. nefndarmanna lýst yfir við hlutaðeigandi aðila.

Í nefndarálitinu segir m.a. að nefndin telji afar mikilvægt að tryggt verði að fullnægjandi meðferðarheimili og/eða vistunarúrræði verði til staðar í því millibilsástandi sem varir þar til nýtt meðferðarheimili verður tekið í notkun. Það virðist sem sagt í þeirri þingsályktunartillögu sem um ræðir að það séu einhver ár í að nýtt meðferðarheimili taki við. Í gögnum sem hafa borist vegna málsins kemur fram að það er mjög mikið álag á þeim stöðum sem starfræktir eru í dag. Það hefur líka komið fram að nú þegar eru til úrræði eins og MST og PMTO sem duga í einhverjum tilfellum en í öðrum gögnum kemur fram að þeir einstaklingar sem þurfa að fara inn á meðferðarheimili hafi þegar reynt þau meðferðarúrræði og þau dugi ekki til, þess vegna þurfi meðferðarheimili og aðstöðu þar til þess að þeir einstaklingar fái þjónustu við hæfi.

Á næstunni munu fara fram fundir í hv. velferðarnefnd um málið. Við munum taka þetta til umræðu.

Í öðru lagi er breytingartillaga um að á eftir 1. tölulið komi nýr töluliður sem heitir ART-þjónusta. Þar kemur fram að ART-þjónustan skuli efld og í því felist m.a. að áfram verði unnið að uppbyggingu ART-þjónustusvæða á landsvísu, að ART-meðferðaraðilum sem hlotið hafa viðeigandi þjálfun verði fjölgað og að fram fari reglulegt eftirlit með gæðum þjónustunnar. Markmið þessa er að bjóða upp á úrræði vegna hegðunarvanda barna sem felst í því að efla foreldra í uppeldishlutverki sínu og stuðla að bættum samskiptum barna og foreldra. Kostnaðaráætlun vegna þessa er um 30 millj. kr. á ári. Barnaverndarstofa ber ábyrgð á því og samstarfsaðilar munu verða velferðarráðuneytið og barnaverndarnefndir um land allt. Mælikvarðinn er sá að ART-þjónustusvæðum fjölgi og þá fari reglulegt gæðaeftirlit fram á sama tímabili.

ART-verkefnið er vel afmörkuð og árangursrík aðferð sem byggir á félagsfærni, sjálfstjórn og siðferði og miðar að því að draga úr erfiðri hegðun hjá börnum og ungu fólki, t.d. þeim sem greinst hafa með þroskaraskanir, ofvirkni eða alvarlegar atferlistruflanir. Rannsóknir sýna að þessi aðferð hefur hjálpað börnum og ungmennum að bæta samskipti. Unnið er með félagsfærni þar sem kennd eru jákvæð samskipti; í sjálfstjórn læra nemendur að bregðast við árekstrum á jákvæðan hátt og siðferðisþátturinn leggur áherslu á að nemendur rökræði undir stjórn þjálfara út frá klípusögum.

Í nefndaráliti segir að mikil og góð reynsla hafi verið af ART-þjónustu og leggur nefndin áherslu á að samningar um þá þjónustu verði framlengdir og að áfram verði unnið að því að þróa hana.

Í þriðja lagi er það breytingartillaga um að á eftir 7. lið komi nýr töluliður, sem er: Viðbrögð við fjölgun tilkynninga um ofbeldi gegn börnum. Þar er kveðið á um að börnum sem hafa upplifað heimilisofbeldi verði tryggður nauðsynlegur stuðningur og þjónusta. Markmið þessa er að bregðast við mikilli fjölgun tilkynninga um ofbeldi gegn börnum. Kostnaðaráætlunin rúmast innan fjárheimilda velferðarráðuneytisins. Ábyrgð á þessu ber velferðarráðuneytið. Samstarfsaðilar eru Barnaverndarstofa, barnaverndarnefndir sveitarfélaganna, Kvennaathvarfið og lögreglan. Mælikvarðinn er að settar verði fram tillögur um hvernig barnaverndaryfirvöld hyggjast bregðast við mikilli fjölgun, þar með taldar nauðsynlegar lagabreytingar.

Í nefndaráliti kemur fram að hv. nefndarmenn hafi áhyggjur af aukinni tíðni tilkynninga um ofbeldi gegn börnum. Tilkynningar um ofbeldi gegn börnum voru 1.590 árið 2007 en tíu árum síðar voru þær 2.638. Flestar tilkynningarnar um ofbeldi voru vegna tilfinningalegs eða sálræns ofbeldis eða 1.642 á árinu 2016 og hafa aldrei verið fleiri.

Ég er einnig ánægð með að breytingartillaga um MST-þjónustuna kveði á um að hún verði á landsvísu. Í nefndaráliti taka allir hv. nefndarmenn undir mikilvægi þess. MST er meðferðarúrræði á vegum Barnaverndarstofu fyrir fjölskyldur barna á aldrinum 12–18 ára sem glíma við alvarlegan hegðunarvanda.

Auk þess koma mörg jákvæð atriði fram í þessari tillögu og má þar m.a. nefna PMTO og aðra þætti.

Hér er áætlun, eins og fram kom í ræðu hv. formanns og framsögumanns hv. velferðarnefndar, sem gildir til árs. Því er mikilvægt að undirbúningur annarrar þingsályktunartillögu um þetta efni fari í gang sem fyrst. Eins og fram kom í máli hv. flutningsmanns verður unnið að því í hv. velferðarnefnd með haustinu.

Ég ætla að lokum í ræðu minni að nýta tækifærið til að þakka góða samvinnu í hv. velferðarnefnd um þetta mál. Ég er afar ánægð að samstaða tókst meðal nefndarmanna um mikilvægar breytingartillögur og ég hlakka til að eiga áfram samvinnu í nefndinni um þetta mál. Þó að við höfum afgreitt það sem nefndarálit í þverpólitískri sátt frá nefndinni eru atriði sem við þurfum að vinna með.