146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar.

378. mál
[17:15]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir afar gott andsvar. Það er rétt sem fram kemur í andsvari hennar, ekki hefur gefist og ekki gefst tími til að fara yfir alla þætti tillögunnar. Þess vegna er lögð áhersla á ákveðin atriði við afgreiðslu málsins. Í hv. velferðarnefnd var einmitt rætt um notkun á Háholti. Þar kom fram að það hafi verið lítið notað en hafi kostað mikla fjármuni. En við vitum líka að ef við ætlum að veita þjónustu við hæfi sem einstaklingar þurfa á að halda þá kostar hún peninga.

Það hefur einnig komið fram að þau viðhorf hafa orðið svolítið ofan á hjá ákveðnum aðilum að vilja ekki nýta þetta úrræði. Rökin hafa m.a. verið þau að fagleg þjónusta sé ekki á svæðinu. En það er rangt. Það er mjög öflug þjónusta þarna mjög nálægt, skóli og heilbrigðisstofnun og ýmislegt annað sem á þarf að halda til að þjónusta einstaklinga sem þarna eru. Jafnframt kom fram í gögnum sem nefndin hefur fengið að ef Háholt lokar er nú þegar mjög mikið álag á meðferðarheimilum sem eru til staðar í landinu í dag. Jafnframt hefur komið fram varðandi ART- og PMTO- og MST-kerfin að það eru yfirleitt einstaklingar sem fara í meðferð á meðferðarheimilum sem hafa reynt þá þjónustu en hún hefur ekki dugað til.