146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar.

378. mál
[17:19]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Svo ég byrji á að svara lokaspurningunni: Já, það er rétt að samningur við Háholt er við það að renna út. Ég held að það séu um það bil fjórar vikur þar til Háholt á að loka, en nýtt meðferðarheimili verður ekki tilbúið fyrr en eftir nokkur ár.

Varðandi þá stöðu sem verður komin upp ef Háholt lokar er þetta eitt af þeim atriðum sem við ætlum að funda um alveg á næstunni í hv. velferðarnefnd; hver er staðan? Er hún eins og komið hefur fram í gögnum nefndarinnar, að nú þegar sé mjög mikið álag á þeim meðferðarheimilum sem starfrækt eru í dag? Maður skilur ekki alveg rökin þegar menn segja að það þurfi í rauninni ekki þetta meðferðarheimili en á sama tíma er lagt til að byggja annað heimili. Það er rétt sem hv. þingmaður segir, komið hefur fram að ungmennum er ekki vísað á þennan stað, sem útskýrir þá hvers vegna notkunin er svona lítil og verður þá svona dýr fyrir hvern einstakling.

Ég get tekið undir það sem hv. þingmaður segir: Sumir sérfræðingar segja að ekki sé hægt að nýta þessa þjónustu því að sérfræði- og grunnþjónustan og stuðningskerfið sé ekki til staðar, sem er bara rangt því að eins og fram kom í fyrra andsvari er þjónustan svo sannarlega til staðar, á meðan aðrir sérfræðingar segja að það sé gott að taka einstaklinginn út úr slæmum aðstæðum. Stundum er það bara það sem þarf til þess að hjálpa viðkomandi og það er sú þjónusta sem hann og fjölskylda hans þurfa á að halda. Með því er komið til móts við þarfir þessara einstaklinga. Það er það sem við eigum að hugsa um.