146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar.

378. mál
[17:21]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við ræðum um framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar. Ég þakka hv. formanni velferðarnefndar fyrir að skýra þá tillögu sem fyrir liggur og öðrum þeim hv. þingmönnum sem hafa tekið til máls. Þessi málefni hafa verið til umfjöllunar í velferðarnefnd að undanförnu og fengið ítarlega umfjöllun. Það eru ýmis áhyggjuefni sem nefndarmenn hafa látið í ljós og sú tillaga sem lá fyrir hefur tekið talsverðum breytingum til bóta. Framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar á að lifa á milli kjörtímabila sveitarstjórna. Það er um það bil eitt ár eftir af kjörtímabili sveitarstjórnar og við erum ansi sein á okkur núna. Það var samstaða um það í velferðarnefnd að samþykkja þessa áætlun núna en við höfum ríkt vilyrði frá ráðherra um að í haust og í upphafi nýs kjörtímabils sveitarstjórnar muni liggja fyrir ný áætlun að vinna eftir.

Menn hafa áhyggjur af þessum hópi okkar, framtíðarfólkinu, fólkinu sem er að feta götuna fram eftir veg. Við stefnum alltaf að því að það sé gert af öryggi og á farsælan hátt en að það sé einhver til að létta undir ef þau hrasa. Háholt hefur verið nefnt til sögunnar. Ef Háholt lokar með sinn þjálfaða mannskap missir Barnaverndarstofa úr sinni keðju 4 af 22 meðferðarplássum, að því er mér skilst. Við höfum áhyggjur af því í nefndinni hvort það sé nógu þéttriðið netið til þess að brúa þetta bil sem nýtt meðferðarheimili á Reykjavíkursvæðinu á að taka við en (Forseti hringir.) það verður ekki tilbúið fyrr en eftir tvö til fjögur ár.