146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar.

378. mál
[17:24]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðjóni S. Brjánssyni fyrir umræðuna við mig. Það er rétt sem fram kom í máli hans að nú er eingöngu ár eftir af gildistíma þessarar áætlunar. Við í hv. velferðarnefnd munum taka málið til umræðu, sem sagt nýja áætlun og hvernig gangi að vinna að framgangi hennar, á haustdögum þegar þing er að koma saman eða hefur komið saman. Það er rétt sem hv. þingmaður segir að við eigum alltaf að horfa á þjónustu við einstaklinga og skjólstæðinga í kerfi okkar, veita þeim þjónustu á öruggan og farsælan hátt. Ég leyfi mér að segja eins og hv. þingmaður, þarna er þjálfaður mannskapur sem hefur reynslu af því að vinna með ungmennum sem eru stödd á þessum stað og þurfa á slíkri þjónustu að halda. Við missum meðferðarpláss ef Háholt lokar. Það er rétt sem hv. þingmaður hefur sagt að það tekur um 2–4 ár, ég myndi meira að segja halda að tímaramminn væri lengri, þar til nýtt meðferðarheimili getur opnað. Það er auðvitað vont ef við glötum þekkingunni og færninni sem þessir einstaklingar hafa til að þjónusta þennan hóp. Fólk þarf að hafa sérfræðiþekkingu til að sinna einstaklingum á meðferðarheimilum sem þessum.