146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

stefna og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks 2017--2021.

434. mál
[17:49]
Horfa

Óli Halldórsson (Vg):

Virðulegi forseti. Hv. þingmenn eru búnir að fara ágætlega yfir málið. Vart þarf að taka fram að þetta er gríðarlega mikilvægur málaflokkur og markmið málsins af jákvæðum toga að öllu leyti og tek ég heils hugar undir þau. Að tryggja að fólk með fötlun, börn sem fullorðnir, geti lifað sjálfstæðu lífi með reisn. Það þarf ekkert að horfa langt. Hér á Austurvelli var í morgun hópur fólks að berjast fyrir bættum kjörum og réttindum sínum, m.a. hluti af því fólki sem hér um ræðir.

Ég ætla hins vegar bara að vekja athygli á því sem fram kemur í nefndarálitinu að þetta verði skoðað betur í haust, skoðað á ný með tilliti til annarra lagabreytinga og annarra ytri breytinga sem geta haft áhrif á þetta. Eitt af því sem þarf að skoða sérstaklega í framkvæmd eru áhrif á fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga því að sveitarfélögin eru auðvitað þjónustuveitendur að miklu leyti. Óhjákvæmilegt er að kanna það vel og skoða hver áhrif verða á fjárhag þeirra. Þar má svo sem segja að það sé styrkleiki og veikleiki sveitarfélaga að nokkru leyti að þau synji engum í þjónustu, þau eru ekki góð í að synja þjónustu. Þau taka verkefni og sinna þeim vel en það má ekki gerast að til verði ný verkefni sem færast yfir á sveitarfélögin án þess að til komi tekjur. Það er bara sú ábending sem ég vildi koma á framfæri. Ríkið þarf að gæta þess að færa ekki ábyrgð eða kostnað á sveitarfélögin án þess að tekjur komi á móti.

En ég tek heils hugar undir þetta jákvæða mál og vona að það nái fram að ganga.