146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð o.fl.

553. mál
[18:20]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Frú forseti. Nú var afstaða mín til málsins mestmegnis rakin í nefndaráliti minni hlutans en mig langaði til að koma aðeins inn á það að vandinn sem við glímum við á húsnæðismarkaði er fyrst og fremst skortur á stuðningi við ungt fólk. Það eru hér um bil allir á húsnæðismarkaði í ákveðnum vanda í dag vegna lítils framboðs á húsnæði en ungt fólk sem hyggst kaupa sér sína fyrstu íbúð hefur afskaplega takmarkaða möguleika á stuðningi. Í ofanálag er með þessum lögum verið að mismuna fólki eftir tekjum, sem er afar slæmt. Það er munur á því hvort fólk hefur litlar eða miklar tekjur þegar það er að leita sér að sinni fyrstu íbúð. Stóra vandamálið virðist vera að það er erfitt að safna fyrir fyrstu afborgun og það eru ekki allir sem hafa möguleika á stuðningi foreldra eða annarra vandamanna.

Það er lítið úrval af húsnæði á húsnæðismarkaði í dag, kannski ekki síst á höfuðborgarsvæðinu en líka víðar úti um land. Hátt kaupverð ýtir undir vandann vegna þess að þegar fólk kaupir sér sína fyrstu íbúð á 20–30 millj. kr. þá kallar það á 4–6 millj. kr. í fyrstu greiðslu eða í útborgun. Það er áhætta fólgin í því að bjóða upp á hærra lánshlutfall. Það er vissulega kostur að einhver fyrirtæki hafa boðið 2 millj. kr. aukalán til þeirra sem eru að kaupa sér fyrstu íbúð en alveg sama hvernig á það er litið er erfitt að byrja.

Þegar við ræðum mögulegar lausnir á vandanum eigum við að koma að þeim punkti að þeir sem eru að reyna að komast inn á fasteignamarkaðinn, þeir sem eru að reyna að kaupa sér fasteign, eru oft í leiguhúsnæði og leiguíbúðir eru nógu dýrar, það er því erfitt að leggja fyrir. Ég þekki fólk sem hefur unnið aukavinnu um helgar til þess að reyna að safna fyrir kaupum á íbúð. Það er vandinn sem mikið af ungu fólki glímir við.

Það urðu allir varir við auglýsingaherferð í vor sem gerði að vissu leyti lítið úr þeim vanda sem ungt fólk þarf að glíma við. En ef við ætlum að laga þetta vandamál þurfum við að fara að líta heildstætt á það með hliðsjón af t.d. vaxtabótakerfinu, með því að skoða vaxtastigið í landinu, sem er allt of hátt og hefur verið að lækka aðeins en mætti lækka töluvert hraðar, og með því að reyna að lækka líka húsnæðisverð almennt með því að fara að byggja. Það er í rauninni voða lítið sem er hægt að segja um húsnæðisvandann eins og er annað en það að þetta vandamál væri auðleyst ef við myndum byggja nokkur hundruð þúsund fermetra af íbúðarhúsnæði, kannski ekki sem eitt hús heldur sem mörg. Við þurfum ódýrar góðar íbúðir fyrir ungt fólk og núverandi kerfi og þessi lög munu ekki laga það.