146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa.

523. mál
[18:24]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Teitur Björn Einarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa. Með þessu frumvarpi frá umhverfis- og samgöngunefnd eru lagðar til breytingar á fyrrgreindum lögum. Annars vegar er lögð til breyting á kröfum sem gerðar eru til mönnunar lóðs- og dráttarskipa og vinnuskipa sjókvíaeldisstöðva og hins vegar breyting á ákvæði til bráðabirgða sem veitir handhöfum 30 brúttórúmlesta skipstjórnarskírteina réttindi til að starfa á skipum sem eru 12 metrar og styttri í strandsiglingum á þann hátt að þeir fái réttindi á skip 15 sem eru metrar og styttri í strandsiglingum.

Nefndin fékk á sinn fund milli 1. og 2. umr. fulltrúa frá Farmanna- og fiskimannasambandinu, frá Faxaflóahöfnum, Akureyrarhöfn og Vestmannaeyjahöfn ásamt fulltrúa frá rannsóknarnefnd samgönguslysa og frá Félagi vélstjóra og málmtæknimanna. Þá barst umsögn frá Félagi skipstjórnarmanna.

Í stuttu máli kom fram í þessum umsögnum og fundum stuðningur við 2. gr. frumvarpsins, sem er að breyta bráðabirgðaákvæði um áhafnarlög til samræmis, varðandi þá sem höfðu réttindi á 30 brúttórúmlesta skipum við breytingu á lögunum 2007. Komið hefur í ljós að ýmis skip sem voru 30 brúttórúmlestir eru lengri en 12 metrar og því er lögð til þessi breyting, þessi réttarbót þessum rétthöfum til handa. Þá kom fram það sjónarmið fyrir nefndinni að ekki séu forsendur fyrir breytingum á lögunum er varðar mönnun lóðs- og dráttarbáta, eins og frumvarpið gerir ráð fyrir. Ástæða var þó til að breyting sem snýr að vinnuskipum sjókvíaeldisstöðva væri áfram inni. Það snýr að atriði sem varðar hlutverk svokallaðrar mönnunarnefndar um veitingu undanþágna frá reglunum. Það var rætt í þaula í töluvert góðan tíma. Öll sjónarmið voru reifuð til að tryggja að meginatriði laganna um öryggi áhafna og siglinga væru tryggð, en engu að síður kom fram það sjónarmið að þótt að lögin snúist að meginstefnu til um að veita réttindi skipstjórnarmanna út frá lengd skipa og svo réttindi til vélstjórnarmanna út frá stærð vélarrúms væru viss tilvik, eins og eru í lögunum, um undanþágu sem snýr að hlutverki slíkra skipa og starfa sem gegnt er á þeim. Þá er t.d. vísað til björgunarskipa í því sambandi.

Að því sögðu er niðurstaðan sú að nefndinni þykir rétt að bregðast við þeim sjónarmiðum sem fram komu og leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til í meðfylgjandi breytingarskjali. Undir nefndarálitið rita og taka undir með þeim sem hér stendur, Valgerður Gunnarsdóttir, formaður, Ari Trausti Guðmundsson, Ásmundur Friðriksson, Bryndís Haraldsdóttir, Gunnar Ingiberg Guðmundsson, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Líneik Anna Sævarsdóttir og Pawel Bartoszek.