146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

fyrirtækjaskrá.

116. mál
[18:45]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Smári McCarthy) (P):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fyrirtækjaskrá, nr. 17/2003, með síðari breytingum, um aukinn aðgang að fyrirtækjaskrá.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, Jennýju Stefaníu Jensdóttur frá Gagnsæi, samtökum gegn spillingu, og Skúla Eggert Þórðarson ríkisskattstjóra. Umsagnir bárust einnig frá Alþýðusambandi Íslands, Persónuvernd og ríkisskattstjóra.

Í fyrirtækjaskrá eru skráð heiti, kennitölur, heimilisföng, rekstrar- eða félagsform og stofndagar fyrirtækja, nöfn, lögheimili og kennitölur forráðamanna, atvinnugreinanúmer samkvæmt atvinnugreinaflokkun Hagstofu Íslands, upplýsingar um slit félaga eftir því sem við á og önnur þau atriði sem skylt er að skrá samkvæmt lögum eða nauðsynlegt eða hagkvæmt þykir að skrá vegna hagsmuna opinberra aðila eða til miðlunar upplýsinga til opinberra aðila, fyrirtækja eða almennings.

Hluti þessara upplýsinga er í dag aðgengilegur almenningi án endurgjalds á netinu, en aðrar upplýsingar hefur verið mögulegt að kaupa ýmist af ríkisskattstjóra eða af fyrirtækjum sem miðla gögnum úr gagnagrunnum ríkisskattstjóra. Frumvarpið gengur út á að opna aðgang að þeim upplýsingum en þar eru helstar upplýsingar um forráðamenn og aukaupplýsingar.

Ríkisskattstjóri lýsti fyrir nefndinni áhyggjum af tapi á sértekjum. Nefndin óskaði eftir upplýsingum frá ríkisskattstjóra um sundurliðaðan kostnað og sértekjur vegna fyrirtækjaskrár. Samkvæmt svari ríkisskattstjóra voru heildartekjur ríkisskattstjóra vegna fyrirtækjaskrár árið 2016 39,5 millj. kr. Sértekjur vegna uppflettinga í tölvukerfi voru aðeins 340 þús. kr. af því. Helstu sértekjur fyrirtækjaskrár koma frá fyrirtækjum eða stofnunum sem greiddu 100.800 kr. árgjald hvert fyrir afnot af rafrænu afriti fyrirtækjaskrár, en ekki kom fram hverjar heildartekjur vegna þessa væru. Þá kom fram að hvert nýskráð félag greiddi 5.000 kr. kennitölugjald. Samkvæmt tölum sem fengust frá Hagstofu Íslands um fjölda nýskráðra fyrirtækja, þegar þetta var margfaldað saman, námu þær greiðslur samtals 16,9 millj. kr. á árinu 2016. Miðað við það að heildartekjur fyrirtækjaskrár árið 2016 hafi verið 39,5 millj. kr. voru tekjur vegna uppflettinga í tölvukerfi, rafrænna afrita og annarrar þjónustu fyrirtækjaskrár utan nýskráningar því um 22,6 millj. kr. á ári.

Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sagðist styðja frumvarpið, sem er mjög gott, en vildi gjarnan ganga lengra en þetta frumvarp með opnun ársreikningaskrár og hluthafaskrár á komandi árum. Aftur á móti sá hann ekkert annað en kostnað því til fyrirstöðu að málið næði fram að ganga að sinni.

Félagasamtökin Gagnsæi röktu mikilvægi þess fyrir almannahagsmuni, akademíska greiningu og fjölmiðlun að þessi gögn væru aðgengileg.

Meiri hlutinn telur að greitt aðgengi almennings, fræðimanna, fjölmiðla og atvinnulífsins að upplýsingum í fyrirtækjaskrá sé mikilvægt en jafnframt sé nauðsynlegt að rúm gefist til að tryggja ríkisskattstjóra tekjur til móts við þær sértekjur sem myndu tapast. Í ljósi þess og í ljósi almenns stuðnings við markmið frumvarpsins leggur meiri hlutinn til að málið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

„2. gr. orðist svo:

Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2018.“

Lilja Alfreðsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Sigrún Ingibjörg Gísladóttir sat fundinn fyrir Jón Steindór Valdimarsson og er samþykk áliti þessu.

Þetta var ákveðið á Alþingi 26. maí 2017.

Undir rita Óli Björn Kárason, formaður, Smári McCarthy, framsögumaður, Katrín Jakobsdóttir, Njáll Trausti Friðbertsson og Svandís Svavarsdóttir.

Til að klára þessa umræðu fyrir mína parta vildi ég nefna að þetta er fyrsta skrefið af þremur í þessu máli, þ.e. að opna fyrirtækjaskrána, sem við getum vonandi klárað núna. En svo þarf að opna ársreikningaskrá. Ég er að vona að við getum jafnvel gert það í haust með einhverju móti, hugsanlega með því að tryggja tæplega 100 millj. kr. sem vantar upp á til ríkisskattstjóra á móti í fjárlögum. Svo er það hluthafaskráin sem einnig hefur verið viðhaldið að einhverju leyti að vísu bara milli ára, þannig að hún er einungis rétt einu sinni ári svo að öruggt sé. Öll þessi gögn geta komið að miklu gagni við að auka gagnsæi og tryggja almenningi góða yfirsýn yfir hvar öll málin standa.