146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

fyrirtækjaskrá.

116. mál
[18:51]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Þetta er tvímælalaust fyrsta skrefið af nokkrum eins og hv. framsögumaður nefndi. Ég tek undir með honum og þakka stuðning hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sem vill líka ganga lengra með opnun ársreikningaskrár og hluthafaskrár. Hluti af því að stíga eitt skref í einu er að byrja og sjá hvernig notkunin verður. Ég tel að nokkur ágóði verði af opnun fyrritækjaskrárinnar. Þó að það verði kannski ekki í beinum tekjum fyrir ríkisskattstjóra verður það þó nokkur samfélagslegur ávinningur.

Fjölmiðlar hafa nefnt að fréttir hafi ekki orðið til einungis vegna þess að það kostaði 50 þús. kr. að fletta upp tengslum í gegnum fyrirtækjaskrá og samfélagið varð fátækara vegna þess. Það verður því gaman að sjá reynsluna af opnun á þessu og það verður gaman að vinna að því að undirbúa og opna ársreikningaskrá og sérstaklega hluthafaskrá því að þar er hægt að rekja raunverulegu hagsmunatengslin.

Það er annað sem mér finnst vanta að skerpa á í lögunum almennt, það er varðandi framsal á prókúru og því um líkt, hversu sýnilegt það er, þannig að ekki sé löglega hægt að eiga eða sýsla með fyrirtæki án þess að það sé skjalfest á opinberan og aðgengilegan hátt; að ekki sé hægt að vera með falið eignarhald á löglegan hátt.