146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

kosningar til sveitarstjórna.

258. mál
[19:00]
Horfa

Frsm. stjórnsk.- og eftirln. (Brynjar Níelsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti með frávísunartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um kosningar til sveitarstjórna, nr. 5/1998, með síðari breytingum. Þetta varðar kosningarrétt erlendra ríkisborgara.

Mál þetta var rætt talsvert í nefndinni og nefndarmenn almennt sammála um að kosningarréttur er lykilatriði í þátttöku manna í lýðræðislegu samfélagi. Það er orðið svolítið brýnt því að hér munu um 8% kosningabærra manna vera útlendingar. Talsverð samstaða var um það í nefndinni að rýmka þennan rétt.

Nú er það þannig að þetta er með ýmsum hætti í nágrannalöndunum. Kannski má segja að fara þurfi betur yfir þetta. Því varð það niðurstaðan í nefndinni að vísa þessu til dómsmálaráðuneytisins með það í huga að breyta kosningarréttinum og meta hvaða leið væri kannski hagstæðust í þessu.

Samkomulag varð um það í nefndinni að vísa frumvarpinu til ríkisstjórnarinnar.

Undir nefndarálitið rita Brynjar Níelsson, Njáll Trausti Friðbertsson, Birgitta Jónsdóttir, Sigrún Ingibjörg Gísladóttir, Jón Þór Ólafsson, Haraldur Benediktsson, Svandís Svavarsdóttir og Hildur Sverrisdóttir.