146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

vextir og verðtrygging o.fl.

216. mál
[21:04]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu, lán tengd erlendum gjaldmiðlum og breytingartillögu minni hluta hv. efnahags- og viðskiptanefndar. Frumvarp þessa efnis var til umræðu á 144. og 145. löggjafarþingi. Mig langar að rifja aðeins upp sögu þessa máls í ljósi alvarleika þess, eins og kom mjög vel fram í máli hv. þm. Lilju Alfreðsdóttur og í raun og veru ekki miklu við það að bæta. Svo á eftir kom hv. þm. Rósa Brynjólfsdóttir.

Þetta eru auðvitað ekki óumdeilanleg mál og þáverandi formaður efnahags- og viðskiptanefndar, hv. þm. Frosti Sigurjónsson, stóð mjög fast á þessu máli alla tíð. Það er mjög mikilvægt að rifja upp ítrekaðar umsagnir Seðlabankans. Rökin í máli hv. þingmanna hér á undan standa mjög vel, en ég er með eina af fjölmörgum umsögnum Seðlabanka Íslands, frá 25. maí 2015, minnisblað vegna draga að nefndaráliti, á þskj. 975. Þar segir, með leyfi forseta:

„Í umsögn Seðlabankans við upphaflegan frumvarpstexta kom skýrt fram að bankinn teldi óráðlegt að opna á lánveitingar til neytenda sem fælu í sér gjaldeyrisáhættu og lagði því áherslu á að við framkvæmd greiðslumats á láni tengdu erlendum gjaldmiðlum yrði farið fram á að lántaki stæðist greiðslumat í þeim gjaldmiðlum sem lánið tengdist. Breytingar sem gerðar eru á 5. gr. frumvarpsins lúta að þessu og verður aðeins heimilt að veita lán tengt erlendum gjaldmiðlum ef lántaki stenst greiðslumat í viðkomandi gjaldmiðlum, eða lántaki stenst greiðslumat miðað við verulegar gengisbreytingar og/eða verulegar hækkanir á vöxtum og leggi fram erlendar eignir …“

Þetta er kjarninn í textanum sem ég vildi kom að. Seðlabankinn fylgir því eftir í þessari umsögn og telur að um sé að ræða mikilvæga breytingu á frumvarpstextanum sem samræmist sjónarmiðum Seðlabankans og mikilvægt að hún nái fram að ganga.

Nú hefur sviðsmyndin ekki breyst, frekar það að hér eru efnahagslegar aðstæður uppi þar sem hættan er meiri. Þess vegna er mjög mikilvægt að við tökum þetta alvarlega. Ég get því ekki annað, virðulegi forseti, en stutt álit minni hluta og þá breytingartillögu minni hlutans við 8. gr. frumvarpsins, eins og það liggur fyrir að lokinni 2. umr., að leggja skuli fram erlendar eignir í þeim gjaldmiðli sem lánið tengist því til tryggingar.