146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

vextir og verðtrygging o.fl.

216. mál
[21:27]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla nú ekki að blanda mér í persónulegt mál hér því að ég hef ekki séð þá kvikmynd sem hér um ræðir og þakka nú bara guði fyrir. Kannski er ég tossinn í bekknum að hafa ekki séð þá mynd.

Ég vil nú byrja á því að þakka guði fyrir að formaður Samfylkingarinnar sé ekki fótboltaþjálfari því að hann er alveg búinn að missa af því að krónan hefur spilað hér harða sókn frá hruni þó að að vísu höfum við kannski gert jafntefli undanfarið. En það mun allt koma til baka, að sjálfsögðu.

Hv. þm. Theodóra Þorsteinsdóttir er hér að reyna að ræða við okkur um hin gengistryggðu lán. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún sé sátt við það sem augljóslega er innifalið í frumvarpinu: Verið er að búa til tvö lið núna og það á að verðlauna elítuna í landinu með því að leyfa henni að fara og spila í útlöndum, taka erlend lán, án þess að hafa nokkra tryggingu fyrir því að það lendi ekki síðan á almenningi á Íslandi, sem á aftur að borga brúsann ef illa fer fyrir elítunni sem ætlar að spila annars staðar. Er þingmaðurinn sáttur við að fara gegn ábendingum Seðlabankans þar sem lagt er til … (Gripið fram í.) — Hv. þm. Óli Björn Kárason var að hvetja menn til að fá að tala hérna þannig að ég hvet hann til að leyfa mér að tala. Hann getur komið hér á eftir eða farið í andsvar eða eitthvað. Ég skal ræða við þig ef þú vilt koma í andsvar við mig, Óli.

Hv. þingmaður þarf í fyrsta lagi að svara því að sjálfsögðu hvort henni finnist bara í lagi að virða að vettugi ábendingar Seðlabankans þar sem Seðlabankinn varar við því að verið sé að leyfa þetta án þess að fyrir liggi nægar tryggingar.

Í öðru langar mig að spyrja þingmanninn, af því ég sá nú ekki þessa kvikmynd, hvort það sé nú rangt sem hér hefur komið fram, að hún sé að snúast í skoðun sinni þegar kemur að gengistryggðum lánum. Ég bara veit það ekki. Mig langar að heyra það frá hv. þingmanni.

Í þriðja lagi langar mig að spyrja hvaða skoðun þingmaðurinn hafi á því sem hér hefur komið fram hjá a.m.k. tveimur ræðumönnum, að þeir sem ætla að taka þessi erlendu lán séu að reyna að koma sér hjá þeirri ábyrgð sem fylgir því að spila, eins og ég sagði áðan — að vera hér undir þeirri hagstjórn sem þarf að vera. Það er klárt mál í mínum huga að hér er verið að búa til einhverja elítu sem á að njóta annarra kjara en almenningur.