146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

vextir og verðtrygging o.fl.

216. mál
[21:40]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil helst ekki trúa því upp á neinn stjórnmálamann á Íslandi að það sé meðvituð ákvörðun að koma okkur í þá stöðu að við þurfum að velja milli þess að sætta okkur við kerfishrun eða að sæta afarkostum. Ég ætla ekki að ásaka neinn um það hér. Ég vona að ekkert slíkt sé í gangi. En það er vissulega tilfellið að það er nokkurn veginn það sem er boðið upp á ef þetta frumvarp verður samþykkt. Kerfishrun er vissulega möguleiki. Við getum ekki afskrifað þann möguleika vegna þess að við höfum upplifað þann möguleika. Við höfum séð hvað gerist þegar kerfishrun verður. Við vitum alveg hvers konar aðstæður skapa það. Viti menn, eitt af því sem gerist er einmitt það að fólk fer að taka fullt af lánum í erlendri mynt án þess að vera varið fyrir því með erlendum eignum.

Á móti er hin staðan, sem þannig vill til að ég er alveg hlynntur, þ.e. að við skoðum aðra valkosti í peningastefnu. Ég er ekki sannfærður um að það sé endilega lausn allra mál fyrir okkur að taka upp evru og alls ekki einhliða, en ég hef talað fyrir lausbindingu við evru eða annan gjaldmiðil sem leið sem virkar ágætlega fyrir sum lönd. En þetta er samtal sem við verðum að eiga. Þetta samtal hefur ekki enn þá átt sér stað. Það er búið að skipa nefnd, en sú nefnd er ekki hér. Við vitum ekki hvað sú nefnd hefur að segja. Þangað til við vitum það þá er þetta heldur óráðlegt því að það er verið að stilla okkur upp milli hruns og peninga af öðrum toga en við erum vön, á milli steins og sleggju mætti kannski kalla það, og það er bara ekkert jákvætt.

Við hljótum alla vega að gera þá kröfu að við höfum alltaf valdið til að bakka út úr þeim kringumstæðum sem við erum í þegar við erum að skoða nýja möguleika í peningastefnu því að allir geta haft rangt fyrir sér með þetta. Jafnvel þó að ég trúi á einhvers konar lausbindingu gæti ég mögulega haft rangt fyrir mér með það. Við verðum því að hafa þann möguleika að geta bakkað.