146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

umgengni um nytjastofna sjávar o.fl.

272. mál
[23:08]
Horfa

Gunnar Ingiberg Guðmundsson (P):

Frú forseti. Málið eins og það snýr að mér er í rauninni grundvallarmunur í þankagangi framsögumanns og hv. atvinnuveganefndar. Þannig háttar til að málið kom mjög seint til nefndarinnar. Það lá samt fyrir frá fyrsta þingdegi að þetta mál myndi koma til nefndarinnar. Ég kynnti mér það þá og kom það frekar lítið breytt um þremur vikum fyrir þinglok, eftir umsagnarferli. Síðan fer í gang breytingartillaga sem var mjög til bóta og ég ætla ekkert að gera lítið úr því að breytingartillagan sem hér er lögð fram er góð. En — svo er það þetta en — síðan er ég boðaður á fund atvinnuveganefndar klukkan sjö í dag og gert að samþykkja breytingarbreytingarbreytingartillögu því að eitthvað hafði víst farið úrskeiðis í breytingartillögunni. Hafrannsóknastofnun var ekkert sérstaklega sátt við það. En þá er búið að útfæra frumvarpið á þann veg að sólarlagsákvæðið dugi tveimur árum lengur en upphaflega var lagt upp með.

Minn skilningur á því var að þarna værum við að útdeila takmörkuðum gæðum í mjög takmarkaðan tíma á meðan við fengjum grundvallarrannsóknir á því hvaða áhrif það hefði að taka þetta út úr lífríkinu. Síðan er búið að teygja lopann þannig að næsta ríkisstjórn á hugsanlega að fara að gera þetta og setja þetta í lög sem byggja á því að deila aflareynslu, þau byggja á aflareynslu og það til þriggja ára. Ég man eftir frumvarpi sem átti við makríl, þeim almannagæðum var útdeilt með reglugerð af því að ekki fékkst það í gegnum þingið á sínum tíma. En það var einmitt vitnað í sömu lögum til þess að núna væri kominn tími til að fara að úthluta.

Ég tók því nafn mitt af skjalinu, þó svo ég hefði helst viljað vera á því. En þetta er allt of hratt. Mér er kynnt þessi breytingartillaga eins og hún sé minni háttar stilling á því hvernig kúlupenni á að vera í íslensku samfélagi eða eitthvað slíkt. En raunveruleikinn er sá að þetta er grundvallarbreyting og stríðir gegn þeirri trú minni í pólitík að útdeiling almannagæða skuli fara fram í gegnum markaðskerfi.

Það eru flokkar á Alþingi sem gáfu slíkt út fyrir kosningar og hér var kjörið tækifæri til þess í fyrsta sinn að gera það, búa til uppboðskerfi, sníða þau til, vegna þess að hrossaþari og stórþari eru utan netalaga.

Síðan er það hitt að í þessu frumvarpi er verið að takmarka jarðeigendur. Það er verið að segja: Ef þið fáið ekki nýtingarrétt megið þið ekki taka meira en 10 tonn úr fjörunum ykkar út af almannahagsmunum. Ættu þetta að vera 100 tonn? 500? Ég veit það ekki. Talan sem við megum taka úr Breiðafirði liggur ekki fyrir en samt gengur frumvarpið út á að þau gögn liggi fyrir. Ég veit það ekki, þetta eru ekki nægar upplýsingar. Þetta kom flatt upp á mig og því miður er niðurstaðan svona. Píratar geta ekki samþykkt þetta óbreytt. Eða breytt. Eða breytt, breytt.