146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

437. mál
[23:13]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Nichole Leigh Mosty) (Bf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir framhaldsnefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, með síðari breytingum, jafnlaunavottun.

Þar sem tíminn er naumur ætla ég ekki halda jafnréttis- og fagnaðarræðu mína. Ég ætla bara fara í efni nefndarálitsins til þess að sýna hvað nefndin lagði mikið í þetta mál. Við fengum 27 gesti tvisvar sinnum á fund okkar. Nefndinni bárust 22 umsagnir. Bara í dag verða haldnir tveir fundir um þetta mál.

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, þannig að mælt verði fyrir um skyldu fyrirtækja og stofnana þar sem starfa 25 eða fleiri starfsmenn að jafnaði á ársgrundvelli, til að öðlast jafnlaunavottun með sérstakri vottun faggilts vottunaraðila. Gert er ráð fyrir að slíkur vottunaraðili hafi öðlast faggildingu hjá faggildingarsviði Einkaleyfastofu eða sambærilegum aðila á Evrópska efnahagssvæðinu í samræmi við 4. gr. reglugerðar nr. 929/2014, um vottun á jafnlaunakerfum fyrirtækja og stofnana á grundvelli staðalsins 85:2012. Lagt er til að staðallinn ÍST 85, Jafnlaunakerfi – Kröfur og leiðbeiningar, verði lagður til grundvallar jafnlaunavottun samkvæmt frumvarpinu. Lagt er til grundvallar að fyrirtæki og stofnanir með 25 eða fleiri starfsmenn skuli undirgangast ákveðið vottunarferli til að leiða í ljós hvort þar ríki launajafnrétti, þ.e. að jafnlaunakerfi viðkomandi og framkvæmd þess uppfylli skilyrði jafnlaunastaðalsins.

Jafnframt er lagt til að mælt verði fyrir um heimild fyrir samtök aðila vinnumarkaðarins til að semja svo um í kjarasamningum að við úttekt á jafnlaunakerfi fyrirtækis eða stofnunar þar sem 25–99 starfsmenn starfa að jafnaði á ársgrundvelli sé unnt að óska eftir staðfestingu hagsmunaaðila á því að þar ríki launajafnrétti í stað þess að óska eftir vottun faggilts vottunaraðila.

Ég ætla bara að fara í ákveðin atriði, ekki allt saman.

Einnig er lagt til í frumvarpinu að fyrirtæki og stofnanir með 25 starfsmenn eða fleiri undirgangist vottun samkvæmt 1. gr. staðalsins ÍST 85, en í þeim tilvikum þar sem byggt verður á kjarasamningi samtaka aðila vinnumarkaðarins sé heimilt að öðlast jafnlaunavottun með því að öðlast staðfestingu hagsmunaaðila á grundvelli 1. gr. b staðalsins ÍST 85 í stað fyrrgreindrar vottunar á grundvelli 1. gr. c staðalsins.

Í frumvarpinu eru lögð til mismunandi tímamörk það hvenær vottunar- eða, eftir atvikum, staðfestingarferli, náist um það samningar milli samtaka aðila vinnumarkaðarins, skuli vera lokið eftir stærð fyrirtækja eða stofnana, en stefnt er að því að innleiða jafnlaunavottun í áföngum á þriggja ára tímabili.

Einnig vil ég taka fram hér að fyrirtæki og stofnanir skuli endurnýja jafnlaunavottun eða staðfestingu á þriggja ára fresti. Þegar jafnlaunavottun liggur fyrir skal vottunaraðili skila afriti af vottunarskírteini ásamt skýrslu um niðurstöðu úttektar til Jafnréttisstofu. Jafnframt skal skila skýrslu hafi úttekt ekki leitt til vottunar. Það fer í báðar áttir, þarf að vita hvort menn hafa gert þetta eða ekki. Lagt er til að Jafnréttisstofu verði heimilt að veita samtökum aðila vinnumarkaðarins aðgang að skýrslum vottunaraðila um niðurstöðu úttektar á jafnlaunakerfi fyrirtækis eða stofnunar hafi úttekt ekki leitt til jafnlaunavottunar til að þau geti sinnt eftirlitshlutverki sínu.

Í frumvarpinu er lagt til að Jafnréttisstofa haldi skrá yfir þau fyrirtæki og stofnanir sem fengið hafa jafnlaunavottun og birti hana með aðgengilegum hætti á vef stofnunarinnar.

Aðgerðir vegna kynbundins launamunar. Við meðferð málsins í nefndinni var rætt um stöðu jafnréttismála almennt og aðgerðir gegn kynbundnum launamun. Rætt var um rannsóknir sem gerðar hafa verið á kynbundnum launamun og hvernig hann birtist sem viðvarandi vandi á íslenskum vinnumarkaði. Góðu fréttirnar eru að fram kom að kynbundinn launamunur hefur farið minnkandi á íslenskum vinnumarkaði síðustu ár, en það sé áhyggjuefni að hann mælist enn þrátt fyrir langa og mikla atvinnuþátttöku kvenna.

Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að þrátt fyrir skýran vilja löggjafans um að sporna við kynbundnum launamun hafi lagasetningin ekki dugað til þar sem launamunur kynjanna sé enn til staðar. Stjórnvöld hafi jafnframt farið í sértækar aðgerðir í þágu jafnréttis og stuðlað að vitundarvakningu um jafnrétti á vinnumarkaði. Fyrir nefndinni var rætt um mikilvægi þess að uppræta kynbundinn launamun sem verið hefur til staðar hér á landi frá því að konur hófu þátttöku á vinnumarkaði. Fram komu sjónarmið um að hægt væri að fara ólíkar leiðir til að ná því markmiði, með og án lagaboða og sérstakra aðgerða.

Meiri hlutinn leggur áherslu á að frumvarpið sé skref í átt að því markmiði að tryggja að konur og karlar fái sömu laun fyrir sömu störf. Meiri hlutinn telur rétt að haft verði í huga að jafnlaunavottun sé tæki til að ná fram launajafnrétti en ekki endanleg lausn vandans. Meiri hlutinn undirstrikar að nauðsynlegt sé að stjórnvöld vinni áfram að því að stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði og að taka til skoðunar aðra áhrifaþætti á launamun kynjanna, svo sem kynbundið starfsval og launamun milli starfsstétta.

Inntak jafnlaunavottunar. Hér ætla ég að spóla aðeins hratt yfir. Á fundum nefndarinnar var rætt almennt um jafnlaunavottun og hvað felist í slíkri vottun fyrir fyrirtæki og stofnanir, þ.e. innleiðing jafnlaunastaðalsins. Jafnlaunastaðall er aðferð fyrir fyrirtæki og stofnanir til að koma upp kerfi sem tryggir að ákvarðanir í launamálum byggist á málefnalegum sjónarmiðum. Jafnlaunavottun á því ekki að koma í veg fyrir að vinnustaðir geri upp á milli starfsfólks við launaákvarðanir á grundvelli málefnalegra sjónarmiða eða að litið verði til einstaklingsbundinna þátta. Fyrir nefndinni var rætt um að mikilvægum áfanga í jafnréttisbaráttu hefði verið náð þegar stjórnvöld hefðu ráðist í tilteknar aðgerðir í stað þess að bíða eftir að vinnumarkaðurinn tæki breytingum. Meiri hlutinn ítrekar það sjónarmið að frumvarpið er skref í átt að því markmiði að tryggja að konur og karlar fái sömu laun fyrir sömu störf og að jafnlaunavottun sé tæki í baráttunni við að uppræta kynbundinn launamun en ekki endanleg lausn vandans, eins og ég sagði áður.

Fyrir nefndinni var rætt um að jafnlaunavottun gæti haft jákvæð áhrif á fyrirtæki og stofnanir í því að huga að stöðu jafnréttis á vinnustað almennt. Jafnframt telur meiri hlutinn rétt að benda á að um er að ræða verkfæri fyrir fyrirtæki og stofnanir sem hægt er að nýta samhliða öðrum aðferðum eða úrræðum þeirra við að stuðla að jöfnun launamunar kynjanna.

Staðallinn ÍST 85, Jafnlaunakerfi – Kröfur og leiðbeiningar. Við meðferð málsins í nefndinni var rætt um eðli jafnlaunastaðalsins ÍST 85 og innleiðingu hans sem og tilvísanir í staðalinn í frumvarpinu. Ég ætla að geyma aðeins þessa hluti og koma að því sem var svolítið niðurstaða meiri hlutans.

Meiri hlutinn leggur áherslu á mikilvægi þess að mögulegt verði að birta jafnlaunastaðalinn og auka aðgengi fyrirtækja og stofnana að staðlinum þar sem verið sé að gera notkun hans skyldubundna. Fyrir nefndinni var bent á að tímabært væri að fara að huga að endurskoðun jafnlaunastaðalsins. Meiri hlutinn hvetur stjórnvöld til að vinna að breytingum á jafnlaunastaðlinum í samráði við samtök aðila á vinnumarkaði og Staðlaráð Íslands.

Faggilding vottunaraðila. Nefndin fjallaði á fundum sínum um faggildingu vottunaraðila, en samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að vottunaraðili hafi öðlast faggildingu hjá faggildingarsviði Einkaleyfastofu eða sambærilegum aðila á Evrópska efnahagssvæðinu í samræmi við 4. gr. reglugerðar nr. 929/2014, um vottun á jafnlaunakerfum fyrirtækja og stofnana á grundvelli staðalsins ÍST 85:2012.

Við meðferð málsins í nefndinni komu fram þó nokkrar ábendingar um veikleika í faggildingarmálum hér á landi og efasemdir um að Einkaleyfastofa gæti uppfyllt lögbundið hlutverk stofnunarinnar á sviði faggildingar vegna skorts á starfsfólki og sérþekkingu. Bent var á að vottunarfyrirtæki hefði þurft að leita erlendis vegna faggildingar en því getur fylgt mikill kostnaður.

Eftir miklar umræður og skoðanaskipti var niðurstaða okkar í meiri hlutanum að verði frumvarpið að lögum verði ekki hætta á að framkvæmd laganna sæti hindrunum. Meiri hlutinn leggur áherslu á að faggildingarmálum hjá Einkaleyfastofu verði komið í betra horf og hvetur stjórnvöld til að setja þá vinnu í forgang.

Hlutverk Jafnréttisstofu. Fyrir nefndinni lýstu margir umsagnaraðilar áhyggjum af því að Jafnréttisstofa myndi ekki geta sinnt nýjum verkefnum sem stofnuninni væru falin samkvæmt frumvarpinu. Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að huga þurfi að því að efla starfsemi Jafnréttisstofu verði frumvarpið að lögum ella verði markmiðum þess ekki náð.

Meiri hlutinn tekur undir mikilvægi þess að Jafnréttisstofu verði tryggður nægilegur mannafli til að takast á við nýjar skyldur samkvæmt frumvarpinu verði það að lögum. Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að gert er ráð fyrir að fjölga þurfi um eitt stöðugildi hjá Jafnréttisstofu vegna þeirra nýju verkefna sem henni eru falin samkvæmt frumvarpinu og að kostnaður á fyrsta ári verði 14 millj. kr. og síðan 13 millj. kr. árlega.

Meiri hlutinn bendir á að stefnt sé að því að innleiða jafnlaunavottun í áföngum. Mikilvægt er að stjórnvöld taki það til athugunar í innleiðingarferlinu hvort fjölgun um eitt stöðugildi sé nægjanleg fyrir Jafnréttisstofu og bregðist við ef þarf. Fyrir nefndinni var einnig rætt um stöðu kærunefndar jafnréttismála og mögulega fjölgun mála hjá nefndinni. Í því sambandi bendir meiri hlutinn á að samkvæmt frumvarpinu séu ákvarðanir um dagsektir kæranlegar til ráðherra og því ekki fyrir séð að álag aukist á kærunefnd jafnréttismála við samþykkt frumvarpsins.

Aðkoma samtaka aðila á vinnumarkaði. Meiri hlutinn bendir á að náist samningar milli aðila vinnumarkaðarins hafa fyrirtæki og stofnanir af þessari stærð annan valkost í stað skyldu til jafnlaunavottunar, að úttekt geti farið fram með staðfestingu hagsmunaaðila. Meginreglan er eftir sem áður sú að úttekt fari fram af vottunaraðila og henni ljúki með jafnlaunavottun.

Í frumvarpinu er samtökum aðila vinnumarkaðarins jafnframt falið eftirlitshlutverk og til að þeim verði kleift að sinna því hlutverki er lagt til að fyrirtæki og stofnanir skuli veita samtökum aðila vinnumarkaðarins upplýsingar og gögn sem nauðsynleg eru til að sinna eftirlitinu.

Meiri hlutinn undirstrikar nauðsyn þess að stjórnvöld vinni náið með samtökum aðila vinnumarkaðarins að útfærslu eftirlitsins til að það verði skilvirkt.

Starfslýsingar, flokkun starfa og vinnustaðamenning. Við meðferð málsins í nefndinni var rætt um kröfur jafnlaunastaðalsins og áhrif þeirra á starfslýsingar, starfaflokkun og ólíka vinnustaðamenningu.

Meiri hlutinn bendir á að megináhersla sé lögð á að verðmæti starfa sé metið á málefnalegum grunni. Frumvarpið felur að þessu leyti ekki í sér nýjar efniskröfur um starfslýsingar eða starfaflokkun aðrar en þær sem samið hefur verið um í kjarasamningum eða eru í löggjöf. Þannig gerir jafnlaunastaðallinn ráð fyrir að starfslýsingar verði skjalfestar en jafnframt að starfslýsingar geti tekið breytingum eftir þörfum vinnustaða. Meiri hlutinn leggur áherslu á að fyrirtæki og stofnanir ráði þannig starfslýsingum innan síns vinnustaðar og geti þá t.d. horft til einföldunar á þeim, sé vilji til þess, auk þess sem jafnlaunastaðallinn gerir ekki kröfu um fjölda starfslýsinga.

Staða minni fyrirtækja og stofnana. Á fundum nefndarinnar var rætt um stöðu minni fyrirtækja og stofnana en umsagnaraðilar og gestir lýstu margir áhyggjum af því að skyldur frumvarpsins yrðu íþyngjandi fyrir minni vinnustaði og af kostnaði. Bent var á að reynsla fyrirtækja og stofnana af innleiðingu jafnlaunavottunar sýndi að kostnaður væri oft vanáætlaður þar sem leita gæti þurft sérfræðiaðstoðar og á stjórnendur legðist vinna við að innleiða nýtt kerfi.

Kostnaður og vinna getur þannig verið mismunandi eftir fyrirtækjum og stofnunum, stærð þeirra og starfssviði. Fyrir nefndinni kom þó fram að reynsla þeirra vinnustaða sem hafa undirgengist jafnlaunavottun sýndi að kostnaður væri mestur í upphafi en þegar komið væri að því að endurtaka ferlið væri hann minni.

Lagt er til að um þrjá mismunandi fresti verði að ræða eftir fjölda starfsmanna, þ.e. hvort fjöldi starfsmanna sé á bilinu 25–149, 150–249 eða 250 eða fleiri og er gert ráð fyrir að minnstu fyrirtækin og stofnanirnar þar sem fjöldi starfsmanna er á bilinu 25–149 hafi lengstan tíma til að öðlast vottun eða staðfestingu.

Meiri hlutinn bendir á að með framangreindu fyrirkomulagi sé gert ráð fyrir að stærri fyrirtæki og stofnanir búi yfir innviðum sem auðveldi þeim að innleiða jafnlaunakerfi og verði þannig fyrr reiðubúin að öðlast vottun. Meiri hlutinn undirstrikar að reynsla stærri fyrirtækja og stofnana geti síðan nýst öðrum minni fyrirtækjum og stofnunum sem á eftir munu koma. Meiri hlutinn telur að með hliðsjón af þeim tíma sem minni fyrirtæki og stofnanir hafa til að öðlast vottun eða staðfestingu verði þá þegar til staðar bæði sérfræðiþekking og lausnir fyrir smærri fyrirtæki og stofnanir ef einhver vandkvæði hafa komið í ljós hjá stærri fyrirtækjum og stofnunum. Með því að innleiða skyldu til jafnlaunavottunar í nokkrum þrepum er atvinnulífinu gefið svigrúm til að mæta kröfum frumvarpsins, dregið er úr álagi á vottunaraðila og stuðlað er að því að innleiðingin verði farsæl.

Meiri hlutinn leggur engu síður áherslu á að minni fyrirtæki og stofnanir geti nýtt undirbúningstímann og verði í stakk búin til að takast á við ferli jafnlaunavottunar. Meiri hlutinn leggur því til breytingu á frumvarpinu þess efnis að lagðir verði til fjórir mismunandi frestir eftir fjölda starfsmanna fyrirtækja og stofnana í stað þriggja. Breytingin felur í sér að fyrirtæki og stofnanir þar sem starfsmannafjöldi er á bilinu 90–149 skulu hafa öðlast vottun eða staðfestingu eigi síðar en 31. desember 2020 en fyrirtæki og stofnanir þar sem starfsmannafjöldi er á bilinu 25–89 fái frest 31. desember 2021. Þannig er lagt til að frestur minnstu fyrirtækjanna og stofnananna verði lengdur um eitt ár. Þá bendir meiri hlutinn á að samkvæmt frumvarpinu verður félags- og jafnréttismálaráðherra fengin heimild til að lengja frest fyrirtækja og stofnana til að öðlast vottun eða staðfestingu um allt að 12 mánuði.

Staða opinberra stofnana og fyrirtækja. Á fundum nefndarinnar komu fram sjónarmið um að æskilegt væri að hið opinbera, þ.e. opinberar stofnanir og fyrirtæki að hálfu eða meiri hluta í eigu ríkisins, mundu vera með þeim fyrstu í innleiðingarferlinu til þess að öðlast jafnlaunavottun og að mikilvægt væri að hið opinbera myndi ganga á undan með góðu fordæmi. Meiri hlutinn tekur undir þau sjónarmið og leggur til tvær breytingar á frumvarpinu að því er þetta varðar.

Meiri hlutinn leggur í fyrsta lagi til að opinberar stofnanir, sjóðir og fyrirtæki sem eru að hálfu eða meiri hluta í eigu ríkisins og þar sem 25 eða fleiri starfsmenn starfa að jafnaði á ársgrundvelli, skuli hafa öðlast vottun samkvæmt 4. mgr. 19. gr. eða staðfestingu samkvæmt 5. mgr. 19. gr. á jafnlaunakerfi og framkvæmd þess eigi síðar en 31. desember 2019. Meiri hlutinn leggur áherslu á að breytingartillagan tekur m.a. til allra opinberra stofnana og fyrirtækja og lánastofnana, ásamt sameignar- eða hlutafélögum í meirihlutaeigu ríkisins.

Þá leggur meiri hlutinn til að Stjórnarráð Íslands skuli hafa öðlast vottun samkvæmt 4. mgr. 19. gr. eða staðfestingu samkvæmt 5. mgr. 19. gr. á jafnlaunakerfi og framkvæmd þess eigi síðar en 31. desember 2018. Meiri hlutinn undirstrikar að líta skuli á Stjórnarráð Íslands sem eina heild, þ.e. að öll ráðuneytin sem mynda Stjórnarráð Íslands fari í gegnum ferli til að öðlast jafnlaunavottun sem ein heild eða einn vinnustaður.

Samhliða innleiðingu jafnlaunastaðalsins í stofnunum hins opinbera telur meiri hlutinn brýnt að kostnaður verði greindur og umræddum stofnunum tryggt fjármagn til þess að uppfylla þær skyldur sem frumvarpið kveður á um.

Árangur jafnlaunavottunar og mælanleg markmið. Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að mikilvægt væri að stjórnvöld settu sér markmið og fylgdust reglulega með árangri aðgerða sem ætlað er að uppræta launamun kynjanna. Jafnframt var rætt um að þörf væri á að stjórnvöld legðu til svokallaða verkfærakistu fyrir fyrirtæki og stofnanir sem auðveldaði þeim að innleiða jafnlaunavottun.

Meiri hlutinn tekur undir mikilvægi þess að fylgst verði með áhrifum frumvarpsins á kynbundnum launamun hér á landi og telur æskilegt að það verði gert reglubundið og með samræmdum hætti, t.d. með því að mæla launaþróun á vinnumarkaði með launagreiningum. Meiri hlutinn leggur því til breytingu á frumvarpinu þess efnis að ráðherra skuli láta framkvæma mat á árangri vottunar og staðfestingar á jafnlaunakerfi fyrirtækis eða stofnunar á tveggja ára fresti. Meiri hlutinn leggur áherslu á að matið verði unnið af hálfu sérfræðinga í samvinnu við ráðuneytið og að mælingar verði í formi launakannana eða rannsókna og tölfræði samkvæmt þeim gerð aðgengileg.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

Við 3. gr.

Við a-lið bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

Ráðherra skal láta framkvæma mat á árangri vottunar og staðfestingar á jafnlaunakerfi fyrirtækis eða stofnunar samkvæmt þessari grein á tveggja ára fresti. Ráðherra skal setja reglugerð um nánari framkvæmd og tilhögun þessa mats.

Þá er það b-liður sem fellur brott. Ég ræði það í framhaldsnefndaráliti.

Við 4. gr.

Í stað lokamálsliðar 1. efnismgr. komi tveir nýir málsliðir, svohljóðandi:

Fyrirtæki og stofnanir þar sem 90–149 starfsmenn starfa að jafnaði á ársgrundvelli skulu hafa öðlast vottun samkvæmt 4. mgr. 19. gr. eða staðfestingu samkvæmt 5. mgr. 19. gr. á jafnlaunakerfi og framkvæmd þess eigi síðar en 31. desember 2020. Fyrirtæki og stofnanir þar sem 25–89 starfsmenn starfa að jafnaði á ársgrundvelli skulu hafa öðlast vottun samkvæmt 4. mgr. 19. gr. eða staðfestingu samkvæmt 5. mgr. 19. gr. á jafnlaunakerfi og framkvæmd þess eigi síðar en 31. desember 2021.

Á eftir 1. mgr. komi ný málsgrein, svohljóðandi:

Þrátt fyrir ákvæði þetta skulu opinberar stofnanir, sjóðir og fyrirtæki sem eru að hálfu eða meiri hluta í eigu ríkisins og þar sem 25 eða fleiri starfsmenn starfa að jafnaði á ársgrundvelli hafa öðlast vottun samkvæmt 4. mgr. 19. gr. eða staðfestingu samkvæmt 5. mgr. 19. gr. á jafnlaunakerfi og framkvæmd þess eigi síðar en 31. desember 2019. Þrátt fyrir ákvæði þetta skal Stjórnarráð Íslands, samkvæmt lögum um Stjórnarráð Íslands nr. 115/2011, hafa öðlast vottun samkvæmt 4. mgr. 19. gr. eða staðfestingu samkvæmt 5 mgr. 19. gr. á jafnlaunakerfi og framkvæmd þess eigi síðar en 31. desember 2018.

Þeir sem skrifa undir nefndarálitið eru: Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður, Pawel Bartoszek, Nichole Leigh Mosty, Vilhjálmur Árnason, Bryndís Haraldsdóttir, Eygló Harðardóttir og Andrés Ingi Jónsson.

Í dag vorum við að funda og komum með framhaldsnefndarálit meiri hluta með breytingartillögu. Hér kemur fram það sjónarmið að breytingin sem við lögðum til sé í raun ekki framkvæmanleg hvað varðar staðal. Við getum ekki birt eða falið Staðlaráði Íslands að birta staðalinn í heild vegna höfundaréttar Staðlaráðs. Nefndin leggur því til í áliti sínu að Staðlaráð staðfesti með reglugerð af hlutaðeigandi ráðuneyti og skal í reglugerð vísa til staðalsins. Meiri hlutinn telur mikilvægt að höfundaréttur Staðlaráðs Íslands á staðlinum sé virtur en leggur áherslu á að aðgengi að staðlinum verði tryggt vegna þeirrar skyldu sem frumvarpið felur í sér gagnvart fyrirtækjum og stofnunum. Meiri hlutinn telur rétt að falla frá breytingartillögu um að ráðherra geti með reglugerð falið öðru stjórnvaldi eða Staðlaráði Íslands birtingu staðalsins ÍST 85. Meiri hlutinn beinir því til velferðarráðuneytis, í samráði við Staðlaráð Íslands, að semja um aðgang að staðlinum verði frumvarpið að lögum.

Meiri hlutinn leggur því til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem þegar hafa verið lagðar til en með eftirfarandi breytingu:

B-liður 1. tölul. brtt. á þskj. 942 falli brott.

Þau sem skrifa undir framhaldsnefndarálitið eru: Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður, Nichole Leigh Mosty, framsögumaður, Pawel Bartoszek, Vilhjálmur Árnason, Albert Guðmundsson, Willum Þór Þórsson og Andrés Ingi Jónsson.