146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

437. mál
[23:43]
Horfa

Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Þórhildur Sunna Ævarsdóttir) (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið þótt ég sé ekki enn þá alveg klár á því hvort það megi vera vottunaraðilar hérna sem hafa ekki hlotið faggildingu en bíða hennar sem geta þrátt fyrir það hafið vottun.

En kannski ég snúi mér að öðru á þeim 40 sekúndum sem ég hef. Nú þegar komið hefur í ljós að velferðarráðuneytið hefur enga heimild til að birta kröfur þessa staðals í reglugerð þar sem Staðlaráð er ekki opinber stofnun, þvert á það sem hæstv. ráðherra virðist hafa haldið, langar mig að spyrja hvort þingmaðurinn hafi ekki sambærilegar áhyggjur og ég hvað varðar það að hafa jafn viðamiklar kvaðir sem fylgja refsiheimildir og birta þær ekki. Þykir henni það samræmast góðum stjórnarháttum í réttarríki að svarið við þessu eigi að vera einhvers konar samningaviðræður við (Forseti hringir.) Staðlaráð og að Alþingi sé þannig að gefa ráðuneytinu óútfylltan tékka um hvernig að þessum samningum verði staðið? Og bara kannski?