146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

437. mál
[23:50]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sömu umsagnaraðilar sögðu einmitt að það væri hægt að útskýra sig fram hjá þessum launamun eða starfaflokkun og það kæmi enginn utanaðkomandi aðili og segði að tollstjóri væri ekki verðlagður á þann hátt sem þau ákvæðu.

Annað sem umsagnaraðilar sögðu og spurðu okkur í nefndinni að var hvort við vildum frumvarp um starfaflokkun eða frumvarp um það hvort við fengjum vita hvort jöfn laun væru greidd eða ekki. Horfum aðeins á þetta utan frá: Núna erum við að taka tölfræði frá fyrirtækjum, launaspurningar, og bera saman eftir ákveðnum breytum. Út úr því fáum við óútskýrðan launamun. Þau fyrirtæki og aðilar sem sækja gögnin koma ekki til með að sjá starfaflokkunina inni í þeim fyrirtækjum sem þau fá upplýsingarnar frá og fá væntanlega nákvæmlega sömu tölur. Og sömu breytur leiða til sama óútskýrða launamunar. Fyrirtækin segja síðan: Við erum búin að útskýra þennan launamun. En gögnin segja ekki það sama. Þau segja óútskýrður launamunur.