146. löggjafarþing — 75. fundur,  31. maí 2017.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

437. mál
[00:19]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna, eða jafnlaunavottun. Jafnlaunavottunin og staðallinn sem hún byggir á eru mikilvæg verkfæri til að beita í þágu jafnréttis á vinnumarkaði. En við skulum hafa það alveg á hreinu að þau eru ekkert annað en það. Þau eru verkfæri til að takast á við örlítinn hluta vinnumarkaðarins og rétta hlut kynjanna þar. Þetta er ekki töfralausn til að vinna bug á kynskiptum vinnumarkaði, ekki leið til að sjá til þess að karlar sæki í auknum mæli í umönnunarstörf og konur í auknum mæli í verkamannastörf, ekki töfralausn til að ná fram raunverulegu launajafnrétti í landinu, til þess þurfum við miklu viðameiri aðgerðir en einfalda innleiðingu á staðli ÍST 85.

Þær aðgerðir myndu nú aldeilis verða dýrar — en þess virði því að við myndum standa uppi með samfélag sem væri á allan hátt betra, ef við værum búin að útrýma kynbundnum launamun og gera út um hinn kynskipta vinnumarkað.

En þetta er skref í rétta átt. Þótt lítið sé fögnum við því, eins og öllum skrefum sem stigin eru í rétta átt. Við vitum ekki nákvæmlega hve mikil áhrifin af þessu máli verða þegar það verður komið að fullu til innleiðingar hjá þeim 1.180 fyrirtækjum og stofnunum sem rætt er um að málið nái til, en af umsögnum þeirra sem til þekkja að dæma verða áhrifin góð. Áhrifin verða ekki endilega bara góð vegna þess að þetta muni leiða til jafnréttis á vinnustaðnum heldur vegna þess að öll umgjörð launaákvarðana á vinnustaðnum verður vandaðri. Það verður tryggt að málefnaleg sjónarmið þurfi að liggja að baki starfaflokkun, að launaákvarðanir séu réttlættar og skjalfestar, að búið sé til kerfi utan um ákvarðanir sem allt of oft eru teknar nánast handahófskennt, en handahófið er þó aldrei meira en svo að launin verða alltaf að meðaltali hærri karlamegin en kvennamegin.

Þó að við séum með innleiðingu á jafnlaunastaðlinum aðeins að ráðast á það hólf sem hver starfaflokkur fyllir í hverju og einu fyrirtæki fyrir sig þá er það þó eitthvað. Þau hólf verða þá pínulitlar vinjar launajafnréttis. Svo þegar þetta er komið í gang skulum við vinda okkur í að berja almennilega á kynjakerfinu á vinnumarkaði og ná fram raunverulegu launajafnrétti.

Eins og fram hefur komið er þetta mál eitt af helstu áherslumálum Viðreisnar, flokks hæstv. ráðherra jafnréttismála. Þess vegna er miður að málið hafi komið til þingsins jafn vanbúið og raun ber vitni. Það hefði verið gott að fá þetta mál tilbúnara, unnið í meira samráði við þá sem til þekkja úti í samfélaginu, og helst að fá það fyrr líka, þannig að við hér á þingi hefðum haft meiri tíma til að vinna úr þeim athugasemdum sem fram hafa komið en við höfðum. Við vorum að klára upphaflegt nefndarálit 25. maí, það er ekki langt síðan. Þá höfðum við verið með gestakomur í rétt rúma viku. Ég segi fyrir sjálfan mig að ég hefði viljað gefa þessu máli meiri tíma. En svona er þetta, við höfum ekki alltaf allan þann tíma sem við vildum að við hefðum.

Það sem við getum gert með svona mál er að búa þannig um þau að tíminn vinni með þeim. Það hefur okkur sem stöndum á bak við meirihlutaálit allsherjar- og menntamálanefndar tekist. Ég held að ég sé ekki að ljúga upp á neinn þegar ég segi að allir sem standa að meirihlutaálitinu átti sig á að vankantar eru á málinu eins og það er lagt fyrir þingið. Ég held raunar að ráðherrann hafi komið inn á það í 1. umr. málsins hér í þingsal að þegar reynsla kæmi á innleiðingu málsins, þegar hjólin væru farin að snúast, færum við að sjá hvar þyrfti að smyrja og hvar þyrfti að stilla og hvar þyrfti að láta vélina ganga betur. Þess vegna væri líka innleiðingin í skrefum þannig að í fyrsta skrefi komi stærstu fyrirtæki og stofnanir og innleiði þetta, en það eru líka þeir aðilar sem hafa fyrir þá innviði sem staðallinn kallar á. Þetta eru fyrirtæki sem gjarnan hafa einhvers konar skjalaflokkunarkerfi og mannauðsstjórnun, einhverja þá innviði sem hægt er að byggja á til að innleiða það starfsmatskerfi sem felst í jafnlaunavottuninni. Síðan verður hægt að byggja á þeirri reynslu þegar smærri aðilar koma að málum ári seinna og enn smærri ári eftir það. Raunar er það svo að stærstu aðilarnir gætu jafnvel staðist jafnlaunavottun strax í dag.

Við fengum á fund nefndarinnar mannauðsstjóra Orkuveitu Reykjavíkur sem lýsti gríðarlegum metnaði þar á bæ til að útrýma kynbundnum launamun og gera það ekki með einhverju fiffi heldur í alvöru. Orkuveitan er vinnustaður þar sem fólk skiptist mjög eftir kynjum á ólík störf. Orkubransinn er þar að auki mjög kynskiptur hluti vinnumarkaðarins. Þarna er verulega á brattann að sækja. Orkuveitan er að mig minnir sjö sinnum búin að láta gera jafnlaunaúttekt á sér og mér sýnist að hún myndi fljúga í gegnum bæði VR-vottunina, sem var hér í gangi um árið, og væntanlega líka jafnlaunastaðalinn, en hefur hins vegar kosið að gera það ekki enn um sinn. VR-vottunina vildi hún ekki vegna þess að það hefði verið fölsk niðurstaða. Orkuveitan sá að hún hefði komist í gegnum VR-vottunina og hefði getað fengið þann stimpil að vera ekki með kynbundinn launamun, þó að sjá hefði mátt af tölum þaðan að kynbundinn launamunur væri innan stofnunarinnar. Og eins og heiðarlegri stofnun sæmir sagði Orkuveitan bara: Nei takk, við viljum ekki fá þennan platstimpil. Ég vona að flest fyrirtæki og stofnanir hugsi þetta, þegar kemur til kasta jafnlaunavottunar, því að ég hef áhyggjur af því að jafnlaunavottunin, ef ekki er vandað til verka, geti orðið hvítþvottur. Orkuveitan hefði svo auðveldlega getað komið sér í gegnum VR-vottunina vitandi vits að innan OR væri kynbundinn launamunur.

Það sem við í meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar gerðum varðandi breytingar í því nefndaráliti sem hér liggur fyrir sneri í fyrsta lagi að gagnsæi; sneri að því að textinn í þessari forboðnu bók, sem allt of fáir þingmenn hafa handfjatlað og enn færri úti í samfélaginu, texti staðals ÍST 85, væri gerður aðgengilegur að öllu leyti eða kjarninn í honum í það minnsta. Þetta vildum við ekki til að losa fyrirtæki undan þeirri áþján að þurfa að punga út 10 þúsund kalli til að komast í plaggið heldur til að almenningur gæti séð hvaða lög er verið að setja hér á þingi. Það kom okkur þess vegna nokkuð á óvart þegar við fengum skilaboð um það frá Staðlaráði að breytingartillaga meiri hlutans, sem liggur hér fyrir í nefndaráliti á þskj. 942, bryti mögulega höfundarétt á staðlinum þrátt fyrir að breytingartillagan hefði verið unnin í samráði við velferðarráðuneytið. Það eru vinnubrögð sem ég kann ekki að meta. Þetta samspil ráðuneytis og þings þarf að ganga upp. Við þurfum að geta treyst því að upplýsingar sem við fáum frá ráðuneyti standist. Það gerðu þær ekki í þessu tilviki.

Þess vegna stöndum við frammi fyrir því að vera hér með framhaldsnefndarálit á þskj. 983 þar sem við tökum til baka þessa sjálfsögðu tillögu okkar um að efni staðalsins sé birt í reglugerð. En í þessu framhaldsnefndaráliti stendur að meiri hlutinn leggi áherslu á að aðgengi að staðlinum verði tryggt en það verði ekki gert með því að setja það í lagatexta hér og nú heldur með því að ráðuneytið og Staðlaráð setjist niður og semji sig að lausn þannig að almenningur geti komist í þennan texta. Ég legg ríka áherslu á að þetta gangi upp. Og gangi upp áður en lögin taka gildi.

Annað sem við í meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar leggjum til varðandi breytingar er að Stjórnarráðið sé í fyrstu gusu þeirra sem innleiða staðalinn. Jafnframt að Stjórnarráðið fari þar inn sem einn vinnustaður, einn 500 manna vinnustaður, sem það er, en ekki þessi 11 hólf sem það vill stundum verða. Með þessu tryggjum við að framkvæmdarvaldið upplifi á eigin skinni fyrst allra alla þá mögulegu vankanta sem eru á þessum lögum. Þá ætti að vera hægðarleikur fyrir ráðherra að fá hugmyndir að úrbótum á lögunum til að leggja fyrir þingið. Það mun ekki standa á viðbrögðum hér vegna þess að við í meiri hlutanum leggjum líka til að Alþingi sé í fyrstu innleiðingarlotu. Þá ekki sá hluti sem erum við kjörnu fulltrúarnir sem lútum öðrum lögmálum á vinnumarkaði en flest annað fólk heldur þeir tugir nefndarritara, þingvarða og annarra starfsmanna sem starfa á vinnustaðnum Alþingi þannig að innleiðingin verði hjá löggjafarvaldinu og framkvæmdarvaldinu í framvarðarsveit með öllum stærstu fyrirtækjum og stofnunum landsins.

Þá reikna ég með að þess verði ekki langt að bíða að við fáum breytingartillögur frá hæstv. ráðherra til að bæta málið.

Það hefur verið nefnt, og ég má til með að víkja nokkrum orðum að því, að hlutverk Jafnréttisstofu kunni að vera of lítið eins og frumvarpið er lagt upp. Ég held að það megi skoða það í víðara samhengi, ég held að hlutverk kynjafræðinga þurfi líka að vera skýrt og sterkt hjá þeim sem eru að vinna að innleiðingu staðalsins. Þær vottunarstofur sem munu þurfa að taka fyrirtæki út þurfa að kunna fleira en bara að lesa út úr hráum launatölum því að það þarf dýpri þekkingu til að geta grafið sig niður á rökstuðning fyrir launaákvörðunum og rakið þær upp þannig að kynbundni launamunurinn sjáist. Hann sést ekki af tölunum einum og sér heldur þarf mikla sérþekkingu til.

Þetta nefni ég til dæmis með vísan í það sem Orkuveita Reykjavíkur nefndi við okkur sem ég held að hljóti að teljast með þeim aðilum á Íslandi sem lengst eru komnir í innleiðingu á sambærilegu kerfi og hér er lagt til að lögfesta. Meira að segja þar finnst fólki launamunurinn stundum vera svo lúmskur að þau, meðvitaðasta fólkið á landinu, geti sofnað á verðinum, þurfi stöðugt að vera vakandi fyrir því að detta vitlausum megin í launamuninum.

Það væri svo sem hægt að tala talsvert lengur um þetta mál. Ég reikna með að við ræðum þetta mál aftur efnislega, örugglega á næsta þingi, ef ekki þarnæsta, og jafnvel verða með þetta mál til umræðu reglulega allt þetta kjörtímabil meðan innleiðingin leiðir í ljós fleiri og fleiri áskoranir og leiðir til að bæta löggjöfina. Mig langar þó að nefna að ég hef gert að tillögu minni í allsherjar- og menntamálanefnd, og það mæltist vel fyrir, að snemma næsta haust, segjum í október komandi, verði ráðuneytið kallað á fund nefndarinnar og geri grein fyrir því hvernig gangi að innleiða lögin, hvernig gangi að eiga samningaviðræður við Staðlaráð sem við í meiri hlutanum förum fram á að fari í gang verði þetta að lögum hér á vorþingi. Ég vil ekki að við stöndum aftur í þeim sporum sem við stóðum í í allan dag, að vera í einhverri rekistefnu um það á milli ráðuneytis og Staðlaráðs hver eigi og hver megi hvað með staðal, rekistefnu sem ég hélt að hefði átt að vera kláruð áður en málið var lagt fyrir á Alþingi. Ég hélt að þetta hefði verið leyst af ráðuneytinu þegar breytingartillögur voru unnar fyrir meiri hlutann, en einhverra hluta vegna, eftir allt þetta ferli, stóðum við í þeim sporum að samráðsleysi ráðuneytisins og óvönduð vinnubrögð drápu málið nánast í dag, þetta flaggskip Viðreisnar dó næstum drottni sínum í dag vegna þess að ráðherrann gerði byrjendamistök. Við í allsherjar- og menntamálanefnd ætlum að hjálpa ráðherranum út úr þeim vanda. Ég lít svo á að þetta mál verði í gjörgæslu nefndarinnar nú í haust (Forseti hringir.) og jafnvel lengur. Að því gefnu að við náum að samþykkja það hér í vor.