146. löggjafarþing — 75. fundur,  31. maí 2017.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

437. mál
[00:39]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Andrési Inga Jónssyni fyrir góða ræðu. Ég er í grunninn sammála flestu því sem fram kom í ræðu hv. þingmanns. Ég er, ásamt þingmanni, á framhaldsnefndaráliti með breytingartillögu sem snýr að þeim hluta málsins sem hv. þingmaður fór yfir í lok ræðu sinnar, um að falla frá breytingartillögu um að ráðherra geti með reglugerð falið öðru stjórnvaldi eða Staðlaráði Íslands birtingu umrædds staðals, ÍST 85, sem geymir í raun verklag þessa verkefnis. Meiri hlutinn beinir því jafnframt til velferðarráðuneytis í samráði við Staðlaráð Íslands að semja um aðgang að staðlinum, verði frumvarpið að lögum. Þetta segir hér í framhaldsnefndarálitinu og er sjálfsögð breyting, tel ég, á þessu máli.

Það er einkum tvennt sem kom fram í ræðu hv. þingmanns sem ég vil spyrja út í, en fyrst vil ég taka undir með hv. þingmanni um að þetta er verkfæri, gríðarlega öflugt verkfæri. Ég gæti auðveldlega staðið hér og mælt með því við alla stjórnendur að nýta þetta verkfæri því að það er öflugt stjórntæki og eins og öll önnur stjórntæki og gæðakerfi einungis til að efla starfsemi stofnana og fyrirtækja.

Hv. þingmaður talaði um að málið væri vanbúið og hefði þurft meiri tíma. Af hverju er hv. þingmaður á meirihlutaáliti nefndarinnar? Af hverju fór hann ekki sömu leið og Píratar, hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, sem var með sérálit og frávísunartillögu?