146. löggjafarþing — 75. fundur,  31. maí 2017.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

437. mál
[00:44]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni skýrt svar. Það vekur reyndar upp fleiri spurningar og þetta mál er þannig að það mun taka tíma að þroskast, ekki síst þegar fyrirtæki og stofnanir fara að vinna með staðalinn og fara í gegnum það kerfi. Þetta verður ekkert vandamál, eins og kom reyndar fram í ræðu hv. þingmanns, fyrir þau fyrirtæki og stofnanir sem eru þegar með gæðakerfi og vottun á öðrum sviðum. Þá verður öll skjölun mun auðveldari og vísun í skjöl sem fylgja sem geta verið nokkuð umfangsmikil eftir eðli starfseminnar. Það er nokkuð gott að vinna eftir staðlinum en skjölunin getur orðið umfangsmikil og býsna þung í vöfum fyrir minni fyrirtæki sem eru ekki þegar með þessi tæki og tól og þetta ferli eða þá þekkingu innan húss og þurfa jafnvel að ráða þá aukastarfsmann með sérþekkingu á þessu sviði. Ég hef eilitlar áhyggjur af því. Ég bý nú ekki svo vel, af því ég kem inn sem varamaður í nefndina, að hafa farið í gegnum allt þetta ferli og fengið alla gesti og hlustað á hvernig þetta hefur gengið í praxís hjá gestum. En hv. þingmaður kom inn á það, hann sagði að viðbrögð nefndarinnar hefðu verið þau að búa svo um hnútana að láta tímann vinna með málinu. Er þá hv. þingmaður að vísa í þær breytingartillögur sem snúa að tímaramma málsins, fyrir þá sem vinna með staðalinn?