146. löggjafarþing — 75. fundur,  31. maí 2017.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

437. mál
[00:46]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þegar ég sagði að við værum búin að búa svo um hnútana að tíminn ynni með málinu meinti ég að við værum búin að setja inn í það mótor sem myndi draga það í rétta átt frekar fljótlega. Sá mótor er að ráðuneytin öll sem ein heild og Alþingi verða í fyrstu innleiðingarlotunni og finna þá á eigin skinni hvar þarf að laga þetta ferli. Þar með verður komið með úrbótatillögur inn á þing fljótt og örugglega. Við munum þá geta lagað lögin eftir því sem þörf krefur.

Það er hægt að nálgast mál úr hvorri áttinni sem er. Við höfum hér á Íslandi gjarnan innleitt alþjóðasamninga þannig að við byrjum á að eyða 10–15 árum í að uppfylla allar kröfur þeirra og svo fullgildum við þá að því tímabili loknu. En síðasta haust valdi þingið að fara öfuga leið við innleiðingu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, þar sem hann var fullgiltur án þess að allar kröfur væru uppfylltar í stjórnsýslunni. Það var gert t.d. til þess að setja raunverulegan þrýsting á stjórnsýsluna þannig að það taki ekki þessi 10–15 ár að byggja upp alla kubbana sem þarf til að síðan fullgilda á endanum, heldur mun það starf taka miklu styttri tíma. Ég held að sú nálgun, að hleypa málinu á brokk og laga það síðan þegar við rekumst á vandamál, (Forseti hringir.) geti vel skilað sama ef ekki betri árangri en að leyfa málinu að batna með nokkrum umferðum inni á þingi áður en það er endanlega samþykkt.