146. löggjafarþing — 75. fundur,  31. maí 2017.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

437. mál
[01:10]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Aðeins til að lýsa vandamálinu sem við stöndum frammi fyrir þá hafa verið gerðar ýmsar rannsóknir á launamun kynjanna. Ein slík rannsókn fór t.d. fram meðal vísindamanna sem voru að ráða nemendur inn í háskóla. Þá fá starfsmenn háskólans — sem eru þjálfaðir í því að vera eins hlutlausir og þeir geta gagnvart gögnum, það er þeirra sérhæfing, vísindaleg vinnubrögð — starfsumsóknir og vita í rauninni ekki að þeir eru í tilraun. Þetta er blind rannsókn. Þeir fá umsókn sem er merkt með karlmannsnafni og kvenmannsnafni sitt á hvað. Það sem kemur í ljós úr þeirri rannsókn er að þrátt fyrir að þetta sé mjög vel menntað starfsfólk í því að vera hlutlaust, ekki hlutdrægt, þá er samt óútskýrður munur því að þau velja karlmenn umfram konur úr hópi umsækjenda og bjóða þeim hærri laun.

Þetta er einföld, óafvitandi hlutdrægni sem við glímum við. Þetta er ákveðið menningarvandamál sem við glímum við. Við þurfum að vita hvað við erum að glíma við. Það kom fram hjá umsagnaraðilum sem komu fyrir nefndina að þetta verður líka vandamál í fyrirtækjunum hjá fólki sem á að meta störfin. Það er óafvitandi verið að flokka störf sem misverðmæt út af innra gildismati okkar sem við höfum ósjálfrátt tamið okkur. Það þarf virkilega þjálfun, sem er önnur ábending umsagnaraðila, í því að ná að komast yfir þá innri hlutdrægni.

Það sem má gott segja er að staðallinn hjálpar tvímælalaust til við það. En það má ekki draga úr því hversu erfitt í rauninni og faglegt það starf er að ná að yfirstíga þessa ómeðvituðu hlutdrægni.

Eitt tæknilegt atriði sem ég hef athugasemd um varðandi þetta frumvarp er kostnaðurinn, sérstaklega eftir breytingartillögurnar. Nú eiga stofnanir, sem sagt stjórnsýslan eða Stjórnarráðið og Alþingi, að fara í jafnlaunavottun. Umsagnaraðilar nefna að þetta sé allt að 8–9 mannmánaða vinna fyrir meðalstóra stofnun. Það er því umtalsverður kostnaður þarna á bak við sem er ekki lagður fram í frumvarpinu og þess vegna veit Alþingi ekki hversu mikinn kostnað það er að leggja út í. Það veit ekki hversu mikil áhrifin munu vera á fjármálaáætlun. Það eitt tæknilega séð finnst mér vera þess vert að fá þá greiningu áður en við erum tilbúin til að kvitta undir þann kostnað, enda er það á ábyrgð okkar að fara vel með almannafé.

Þetta ferli sem hefur verið farið í, að vera með prufuaðila og fara fyrst í stofnanir og Alþingi og prófa þetta á okkur sjálfum, tel ég vera mjög gott ferli. Ég er alveg tilbúinn til að kvitta undir það sem rétta aðferðafræði í að komast að því markmiði sem frumvarpið setur fram, sem er mjög göfugt markmið að ná. Það eru hins vegar nokkrir aðrir vankantar sem ég sé við það. Eins og ég lýsti áðan í andsvari við framsögumann sögðu umsagnaraðilar sem höfðu prófað þetta jafnlaunavottunarkerfi að öll vinnan væri fólgin í að flokka störf. Vissulega er hugmyndafræðin á bak við það að það verði síðan greidd sömu laun fyrir sömu störf og að því leyti til kannski kallað jafnlaunavottun. En spurningin sem nefndarmenn fengu, og mér fannst mjög upplýsandi, var: Viljið þið frumvarp um starfaflokkun eða um jafnlaunavottun? Lýsingin var sú að þetta frumvarp snerist um að flokka störf, ekki votta að borguð væru jöfn laun. Það segir í nefndarálitinu sjálfu að þetta sé tæki til að komast í þá átt, ekki fullnaðarskref, eins og ég sagði áðan. Þá lít ég á það þannig að þegar fyrirtæki eða stofnun er komin með þetta merki, jafnlaunavottun, sé hún í raun og veru ekki með jöfn laun. Það er einungis kominn útskýrður launamunur, því að aðstæðurnar eru mun flóknari en er viðurkennt að þessi aðferð geti náð yfir

Mér finnst að það sé verið að plata mig á ákveðinn hátt.

Ég set dæmið upp á þennan hátt: Núna er t.d. velferðarráðuneytið að taka gögn, upplýsingar um laun, í fyrirtækjum og stofnunum og gerir tölfræðilega greiningu á þeim gögnum og reynir að útskýra út frá ákveðnum breytum þann launamun sem kemur fram í gögnunum. Eftir að búið er að taka inn allar breyturnar sem hægt er að tína til stendur eftir óútskýrður launamunur. Kannski er hægt að útskýra hann en við vitum ekki hvaða breytur það eru og höfum ekki fundið þær sem útskýra þann launamun sem kemur fram í greiningunni. Eftir að allar þessar stofnanir og fyrirtæki eru búin að ganga í gegnum jafnlaunavottun og við fáum enn þá sömu niðurstöður í gegnum tölfræðigreininguna, í gegnum kannanirnar, og við fáum enn óútskýrðan launamun þá er mjög erfitt að segja: En allar stofnanir og öll fyrirtæki eru búin að útskýra hann; þau eru komin með jafnlaunavottun og þar af leiðandi búin að útskýra launamuninn þó að heildartölfræðin, sem er tekin frá mörgum stofnunum og mörgum fyrirtækjum, sýni fram á óútskýrðan launamun. Úr því fáum við að það er alla vega ekki launamunur innan fyrirtækjanna, ef allt gengur vel. En það er áfram launamunur á milli sambærilegra starfa á milli fyrirtækja.

Á þann hátt finnst mér erfitt að kalla þetta jafnlaunavottun upp á heild að gera og tek undir umsagnir þeirra aðila sem komu til nefndarinnar og kölluðu þetta starfaflokkun. Ég er alveg tilbúin til að kvitta upp á þetta frumvarp sem starfaflokkun. En mér finnst pínulítið verið að plata mig með að segja að það sé jafnlaunavottun hér í gangi og einhver fyrirtæki og stofnanir komin með jafnlaunamerki en eru það í sjálfu sér ekki. Við vitum það ekki, það er bara búið að útskýra launamun. Þá erum við laus við hugtakið „óútskýrður launamunur“, sem er ekki markmiðið með þessu.

Umsagnaraðilar töluðu einnig um aðrar leiðir sem þau fóru. Þau höfnuðu því að fara í gegnum þetta ferli því að það var svo gríðarlega umfangsmikið og kostnaðarsamt, eins og var nefnt eru það 8–10 mannmánuðir að vinna sig í gegnum allar starfalýsingarnar og samanburðinn og hvaðeina. Þau notuðu í rauninni þessar tölfræðilegu aðferðir sem var boðið upp á og skila: Er óútskýrður launamunur eða ekki í fyrirtækinu? Í rauninni sömu greiningar og eru gerðar á heildarlaunatölunum. Og þegar menn hafa þær upplýsingar og prófa að breyta launaákvörðunum sínum, það var þarna forrit sem er í þróun, geta þeir breytt forsendum í launatöflunni hjá sér og séð hvort útkoman sé óútskýrður launamunur eða ekki, alla vega að því leyti.

Það finnst mér miklu eðlilegri leið að fara en starfaflokkun til þess að ná markmiðinu með jafnlaunavottun. Ástæðan fyrir því að þessi fyrirtæki völdu tölfræðileiðina var að hún var miklu umfangsminni, einfaldari og ódýrari í framkvæmd og notkun. Það tók ekki nema 1–2 mannmánuði að setja það kerfi upp og þá er það bara í gangi. Þá þarf aðeins að setja inn tölur ef verið er að taka nýjar ákvarðanir og það er komin útkoman strax.

Ég myndi því vilja bera þetta saman, 8–9 mánuðir á móti 1–2. Mér finnst valmöguleikinn augljós. Þá spyr ég hvort við ættum að vera að fara út í þetta gríðarlega þunga ferli þegar það er til mun léttari aðferð til að ná sama markmiði. Ef hins vegar fyrirtæki og stofnanir vilja útskýra sérstaklega af hverju það er óútskýrður launamunur geta þau tekið upp staðalinn, farið í gegnum starfaflokkunina, farið eftir þeim aðferðum sem eru settar fram þar og þá fá þau útskýringu á því hvað liggur að baki hinum óútskýrða launamun sem kemur fram í tölfræðinni hjá þeim.

Varðandi staðalinn sjálfan. Þetta eru einhverjar 40 blaðsíður. Umsagnaraðilar sögðu að það þyrfti þó nokkuð mikla sérfræðikunnáttu til að lesa hann og skilja. Ég hef aðeins blaðað í gegnum hann og skoðað uppsetninguna á töflunum og samanburðinum og hvernig stigin eru reiknuð og svoleiðis. Þetta er ekkert lítið, það er þó nokkuð mikið mál að setja sig inn í þetta til þess að ná dýptinni. Það er einmitt annað sem umsagnaraðilar sögðu, þetta var uppgötvunarferli hjá þeim. Þótt þau væru orðin mjög sjóuð í því að hugsa í jafnlaunavottun voru þau stöðugt að uppgötva eitthvað nýtt mánuðum seinna. Eins og ég lýsti áðan er þetta gríðarlega erfitt hugarfarsástand og í rauninni menningarlegt fyrirbrigði að yfirstíga, eins og bæði rannsóknir og dæmin sýna.

Ég tel að við þurfum léttari tæki til þess að aðstoða okkur í að upplýsa um óútskýrðan launamun en svona gríðarlega stórt og flókið tæki sem er mjög líklegt að gangi ekki svo auðveldlega alls staðar. Það eru tvímælalaust aðilar þarna úti sem eru með mjög góðan mannauðsstjóra og mjög góða aðstöðu til þess að leggja í þetta ferli og fá örugglega mjög mikið út úr því en ég held að fyrir langflesta verði þetta mjög grýttur vegur.

Hv. þm. Andrés Ingi Jónsson lýsti áðan hvernig honum fannst frumvarpið vera hálfgerð byrjendamistök. Það er ein ástæðan fyrir því að við Píratar teljum okkur ekki geta kvittað undir það. Við sættum okkur einfaldlega ekki við slík vinnubrögð. Við gerum ákveðnar gæðakröfur til þess starfs sem við vinnum á þingi. Við gerum okkur vissulega grein fyrir því að hægt er að gera mistök og við viðurkennum þau fúslega ef svo ber undir. Ég held að afleiðingarnar af því að taka upp þessa starfaflokkun og skylduga starfaflokkun séu ófyrirséðar. Á heildina litið tel ég að þær gætu orðið góðar, ferlið, uppástungurnar, breytingartillögurnar sem komu fram gætu hjálpað því að gerast. En það sem ég skil ekki er af hverju asinn er svona mikill. Aðilar vinnumarkaðarins sögðu að í kringum kjarasamninga nú á þessu ári ætti að reyna að koma staðlinum inn svo að fyrirtæki myndu fara í þá vinnu að verða sér úti um jafnlaunavottun. Þeir töldu það ekki mögulegt nema staðallinn væri kominn í lög. Ég er ekki svo viss um að það sé rétt en það gæti verið hárrétt hjá þeim. Viljinn hjá Samtökum atvinnulífsins var að leggja út í þá vegferð, alla vega samkvæmt umsögn þeirra hjá nefndinni. Viljinn hjá aðilum starfsmanna og vinnumarkaðarins var líka að fara út í þá vegferð. Ef báðir aðilar eru viljugir til að fara út í slíka vegferð skil ég ekki af hverju þarf sérstök lög til þess. Í rauninni væri mjög auðvelt að setja mjög einföld lög um það, eins og lög um Staðlaráð eru sett upp, að hafa mjög einföld lög um starfaflokkun eða jafnlaunaflokkun og setja síðan í reglugerð að nota skuli þennan staðal eins og gert er ráð fyrir að staðlar eigi að vera notaðir.

Ég tel ekki margt í þessu frumvarpi vera nauðsynlegt á fyrstu skrefum. Það væri mjög auðvelt og nothæft að gera það á aðeins einfaldari hátt fyrst. Ef við byrjum á stofnunum, Stjórnarráðinu og Alþingi og tökum þetta í þannig skrefum getum við látið lögin vaxa náttúrulega eftir þeirri reynslu sem við öðlumst smám saman við innleiðingu á staðlinum. Kannski komumst við að því að þetta er gríðarlega þungt og erfitt í innleiðingu og viljum fara aðra leið. Þetta er mjög algengt t.d. í hugbúnaðargerð, við hendum okkur ekki í djúpu laugina í fyrsta skrefi heldur tökum lítil skref og athugum hvert þau skila okkur. Miðað við umsagnir þeirra aðila sem komu fyrir nefndina segja þeir að þetta sé gríðarlega erfitt í innleiðingu, það þurfi gríðarlega þekkingu, tíma og kostnað í að fara í þetta. Þegar ég fæ þannig upplýsingar verð ég að draga djúpt andann og hugsa: Er ekki önnur leið möguleg? Umsagnaraðilar sögðu: Það eru aðrar leiðir mögulegar, lögðu upp þau tölfræðitæki sem eru fyrir hendi. Þá verð ég að spyrja: Er það ekki eðlilegra fyrsta skref?