146. löggjafarþing — 75. fundur,  31. maí 2017.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

437. mál
[01:28]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Frú forseti. Mig langar að þakka fyrir góða umræðu um þetta mál. Jafnlaunavottun sem hér er verið að leggja drög að lögbindingu á, ef málið nær fram að ganga á vorþingi, hefur verið lengi í undirbúningi, á rætur sínar að rekja til ársins 2008 þegar Alþingi hafði forgöngu um að fela þáverandi félags- og tryggingamálaráðherra þróun slíks úrræðis sem var síðan mótað í samstarfi stjórnvalda, aðila vinnumarkaðar, Staðlaráðs og fleiri. Það hefur verið lengi, sem fyrr segir, í mótun og við erum að stíga með lögbindingu staðalsins afar mikilvægt skref. En eins og komið hefur fram í umræðunni er afar mikilvægt að við séum líka vakandi fyrir þeirri staðreynd að þetta er tæki sem við viljum nýta til að útrýma í eitt skipti fyrir öll kynbundnum launamun, en munum að sjálfsögðu þurfa að vera mjög árvökul fyrir virkni þess, úrbótum á því og þróun þess fram á veginn. Þess vegna vil ég þakka sérstaklega hv. allsherjar- og menntamálanefnd fyrir einstaklega vandaða umfjöllun um málið, fyrir þær tillögur sem hér hafa verið lagðar fram af meiri hluta nefndarinnar til breytinga á frumvarpinu, sem ég tel allar vera til bóta, og til að styrkja markmið þess enn frekar um að þetta verði raunverulegt tæki sem við höfum í höndunum til þess að útrýma kynbundnum launamun.

Á það hefur verið bent í umræðunni og í áliti meiri hluta nefndarinnar að æskilegt væri að staðallinn sjálfur væri birtur. Sömu afstöðu hefur raunar einnig gætt í áliti minni hluta. Ég tek heils hugar undir að þetta væri mjög æskilegt markmið. Við munum takast á hendur áskorun nefndarinnar að setjast niður með Staðlaráði og leita leiða til að tryggja að svo sé. Það er þó auðvitað rétt að taka fram að það er mjög skýrt í lögum um Staðlaráð hvernig staðið skuli að lögbindingu staðla, sé ætlunin að gera þá skyldubundna. Eftir því öllu er farið í þeirri aðferðafræði sem hér er lagt upp með. En ég tek heils hugar undir álit bæði meiri hluta og minni hluta að æskilegt væri að ákvæði staðalsins væru opinber til þess að auka gagnsæi, auka aðgengi almennings að upplýsingum um það sem hér er verið að innleiða. Og við munum að sjálfsögðu leitast við að tryggja að svo verði.

En enn og aftur vil ég bara segja að þetta er mikilvægt skref sem við erum að stíga. Ég hef fulla trú á að hér sé á ferðinni raunverulegt tæki sem geti skilað okkur fram veginn í að útrýma hér kynbundnum launamun. Og þótt það sé ekki allra meina bót í þeim efnum muni það skila okkur verulegum og umtalsverðum árangri. Ég er sannfærður um að við munum öll geta tekið saman höndum um að tryggja virkni þess. Ég þakka enn og aftur góða og gagnlega umræðu um málið.