146. löggjafarþing — 76. fundur,  31. maí 2017.

skipun dómara í Landsrétt.

[11:08]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Frú forseti. Þar sem ráðherra hefur séð ástæðu, við tillögu sína um skipun 15 dómara í Landsrétt, stærstu einstöku skipun dómara í Íslandssögunni, nýtt dómstig sem á að vera grundvallaratriði í réttarfari á Íslandi, til að víkja frá áliti dómnefndar um það, er óhjákvæmilegt, eins og segir í dómi 412/2010, að ákvörðun hennar sé reist á rannsókn þar sem m.a. er tekið tillit til fyrirmæla ráðherra í reglum til þessarar dómnefndar um þau atriði er varða umsækjendur og skuli ráða hæfnisnefnd og tryggja að sérþekking njóti þar við í sambærilegum mæli og við stjórn dómnefndarinnar.

Nákvæmlega þessi orð koma fram í þeim dómi þegar þáverandi hæstv. dómsmálaráðherra Árni M. Mathiesen var dæmdur fyrir að brjóta lög með því að fara á svig við dómnefndina án þess að hafa með rökstuddum hætti verið búinn að fara í rannsókn út frá gefnum forsendum. Árni M. Mathiesen, fyrrverandi ráðherra, var dæmdur til að greiða skaðabætur í því máli. En stóri skaðinn þá og stóri skaðinn af þessu ferli, þar sem fjórir dómarar eru teknir út og fjórir aðrir settir inn — ef það er ekki gert með rökstuðningi sem uppfyllir dómafordæmi er stóri skaðinn sá að grafið er undan dómskerfi landsins. Það kemur fram í meðferð stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í málinu.

Ég spyr ráðherra: Hefur dómsmálaráðherra í störfum sínum við gerð tillögu sem ráðherra lagði fyrir Alþingi um skipun 15 dómara í Landsrétt, fylgt dómsorðum í dómi 412/2010, gegn fyrrverandi ráðherra dómsmála, Árna M. Mathiesen?