146. löggjafarþing — 76. fundur,  31. maí 2017.

skipun dómara í Landsrétt.

[11:14]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Það kann vel að vera að hv. þingmanni líki ekki rökstuðningurinn. (Gripið fram í.) Það breytir því ekki að það er ráðherra sem hefur veitingarvaldið og ber á því ábyrgð, bæði pólitíska og stjórnsýslulega ábyrgð. Ráðherra leggur tillögu fyrir þingið. Þingið hefur tvo möguleika í stöðunni, að fallast á tillögu ráðherra eða fallast ekki á tillögu ráðherra. Það eru sérstök lög, sérstök ákvæði, sem gilda um skipun dómara í landinu. Með mjög sérstökum hætti er málinu vísað til Alþingis. Um leið er sérstaklega kveðið á um að ráðherra hafi veitingarvaldið og sé heimilt að víkja frá tillögum dómnefndar. Að sjálfsögðu leggur ráðherra tillögu sína fram með málefnalegum hætti eftir gagngera skoðun á málinu og gögnum þess og að gættum andmælum sem komið hafa fram fyrir dómnefndina og þar fram eftir götunum. Það kann að vera að (Forseti hringir.) hv. þingmaður sé ekki sáttur við niðurstöðuna. (JÞÓ: Sérfræðingarnir.) Hann þarf þá að eiga það við sig en ráðherrann (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) ber ábyrgðina.