146. löggjafarþing — 76. fundur,  31. maí 2017.

styrking krónunnar og rekstrarumhverfi fyrirtækja.

[11:25]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það er alveg augljóst að um margt fara sjónarmið okkar saman í þessu. Við berum báðir hag útflutningsfyrirtækja fyrir brjósti. Ég held að rétt sé að segja frá því að ég var á ráðstefnu í morgun þar sem kynnt var niðurstaða um samkeppnishæfni Íslands og hvernig hún hefur breyst á liðnu ári. Góðu fréttirnar eru þær að samkeppnishæfnin hefur aðeins batnað, við förum úr 23. sæti upp í það 20., og á ýmsum stöðum fáum við hærri einkunn en áður en á öðrum stöðum höfum við lægri einkunn. Þar sem við lækkum mest er vegna mikillar styrkingar íslensku krónunnar. Þetta er öllum augljóst, og öllum augljóst hér inni.

Þó að hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson hafi talað hér áðan á þeim nótum að svo mætti skilja að hann væri á móti fastgengi krónunnar hefur þetta verið stefna íslenskra ríkisstjórna, var t.d. stefna ríkisstjórnar Alþýðuflokks og Sjálfstæðisflokks á árunum eftir 1991 og framan af fyrstu ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.

Varðandi fyrirspurn hv. þm. Loga Einarssonar tel ég að við eigum vissulega að skoða tryggingagjaldið líka. Ég get alveg deilt því með honum. Það er meira að segja í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að það eigi að skoða lækkun á tryggingagjaldi og eins og með annað sem er í stjórnarsáttmálanum tel ég það skynsamlegt.