146. löggjafarþing — 76. fundur,  31. maí 2017.

málefni fylgdarlausra barna.

[11:32]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað einkennilegt ef hv. þingmaður telur ekki ástæðu til að fjalla um eitthvert tiltekið mál sem er til umfjöllunar í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd en sér þó ástæðu til að vera með gífuryrði um embættisfærslur ráðherra, algerlega órökstuddar, hér í ræðustól, án þess að þekkja nokkuð til málsins sem þar um ræðir, þar sem fram fer umræða um það í nefnd þar sem hv. þingmaður situr ekki.

Hvað varðar fyrirspurn hv. þingmanns er það auðvitað mikilvægt mál og ber að þakka fyrir að vakin sé athygli á því. Ég hef nú svarað því í nokkrum fréttatímum og rætt sérstaklega málefni fylgdarlausra barna. Það liggur alveg fyrir að það er ákveðin áskorun fyrir okkur að taka á móti þessum börnum. Nú stendur yfir vinna í dómsmálaráðuneytinu við gerð reglugerðar þar sem sérstaklega er tekið á þessum málum. Fylgdarlaus börn eru verkefni ekki bara dómsmálaráðuneytisins heldur félagsmálaráðuneytis, Barnastofu og lögregluyfirvalda. Eitt meginmarkmið íslenskra stjórnvalda þegar kemur að fylgdarlausum börnum er að leita uppruna þeirra og leita allra leiða til að sameina þessi börn fjölskyldum sínum. Það er meginmarkmið og skylda íslenskra stjórnvalda samkvæmt alþjóðlegum sáttmálum, samkvæmt íslenskum lögum og þar fram eftir götunum.

Á þessu verður tekið í reglugerðinni en á meðan hún er ekki sett er unnið hér eftir ákveðnu verklagi fyrst og fremst í samstarfi við Barnastofu og barnanefndir í einstökum sveitarfélögum, lögreglu, Útlendingastofnun og fleiri.