146. löggjafarþing — 76. fundur,  31. maí 2017.

stjórn fiskveiða.

612. mál
[13:42]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Páll Magnússon) (S):

Frú forseti. Hér er um að ræða frumvarp sem atvinnuveganefnd flytur og ég mæli fyrir fyrir hennar hönd. Lagt er til í frumvarpinu að bráðabirgðaákvæði í lögum um stjórn fiskveiða, sem heimilar ráðherra að ráðstafa aflamagni samkvæmt 5. mgr. 8. gr. laganna til áframeldis í þorski, verði fellt úr gildi. Einnig er lagt til að þrjú ákvæði til bráðabirgða í lögunum verði framlengd til loka næsta fiskveiðárs. Í 2. gr. frumvarpsins er lögð til framlenging á ákvæði til bráðabirgða VII til að hafa afskipti af því þegar aflaheimildir eru framseldar eða þeim ráðstafað með öðrum hætti úr sveitarfélögum ef um er að ræða umtalsverðan hluta aflaheimilda viðkomandi sveitarfélags. Einnig er lagt til að ákvæði til bráðabirgða VIII, um heimild ráðherra til að ráðstafa síld, þ.e. sumargotssíld og norsk-íslenskri síld, og makríl gegn greiðslu, verði framlengt til næsta fiskveiðiárs. Svo fylgir hér að síðustu það sem snýr að makríl að ráðherra sé heimilt að draga frá allt að 5,3% af leyfilegum heildarafla í makríl vegna makrílveiða íslenskra fiskiskipa og ráðstafa samkvæmt 5. mgr. 8. gr. laganna, að það verði framlengt út næsta fiskveiðiár.