146. löggjafarþing — 76. fundur,  31. maí 2017.

stjórn fiskveiða.

612. mál
[13:46]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Páll Magnússon) (S) (andsvar):

Já, takk fyrir þetta. Ég held að þetta sé kannski ekki rétti vettvangurinn til að ræða uppboðsleiðina í sjávarútvegi. Ég held að við þyrftum lengri tíma en það. En ég get hins vegar alveg viðurkennt að þetta reglulega, árlega frumvarp frá ráðuneytinu kemur býsna seint. Það var nú m.a. ástæðan fyrir því að það var ekki á málalista þeim sem var til umfjöllunar þegar verið var að semja hér um þinglok. Ég held hins vegar að ekki sé hægt að nýta þessa ferð til að taka afstöðu til þess með hvaða hætti menn nýta eða framleigja úthlutaðan kvóta. En ég tek hins vegar undir með hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur um að það er fullt tilefni til þess að fara yfir það í sérstakri umræðu við annað tilefni með hvaða hætti þessi framleiga fer fram og hvort setja eigi henni einhver takmörk. Núna snýst þetta hins vegar fyrst og fremst um það að ráðherra sé heimilt að úthluta þessum 5,4% svo smábátum verði gert kleift að stunda makrílveiðar, sem vonandi hefjast í næsta mánuði. Um leið og ég tek að mörgu leyti undir þessi tvenn sjónarmið, þó ekki um uppboðskerfið í sjávarútveginum, þá held ég að þetta sé ekki rétti vettvangurinn og ekki ferðin sem við getum nýtt til þessa.