146. löggjafarþing — 76. fundur,  31. maí 2017.

stjórn fiskveiða.

612. mál
[13:49]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Þetta mál um framlengingu á bráðabirgðaákvæðum kemur allt of seint inn til þingsins. Ég tel að það sé ekki gott þegar ráðuneytin koma með svona mál, sem þurfa að vera borin upp á þessum tíma, það seint að taka þurfi þau inn með bráðabirgðaákvæði. Þetta mál er í sjálfu sér ágætt gagnvart smærri útgerðum, sem er verið að láta fá hlut í bæði makríl og síld. Í þessum félagslega hluta, 5,3%, sé þá tekið af heildinni til ráðstöfunar til þessara smærri útgerða.

Það er líka hárrétt sem kom fram í umræðunni hjá hv. þm. Oddnýju Harðardóttur að horfa verður líka til þess með hvaða skilyrðum viðkomandi aðilar fá úthlutað þessum gæðum, sem vissulega eru. Á síðasta kjörtímabili var makríllinn kvótasettur, sem ég tel að hafi verið kolröng ákvörðun og hafi ekki leitt til góðs. Landssamband smábátaeigenda hefur gefið út að það telji eðlilegt að af heildarúthlutuðum makríl eigi hlutur smábáta að vera að lágmarki 16%. Álíka hlutfall er t.d. í Noregi. Það fóru margir aðilar illa, sem voru búnir að gera út á makríl og útbúa sig þannig, vegna þessarar kvótasetningar. Þeirra úthlutun var það lítil að það borgaði sig ekki að vera að gera út á makríl.

Þetta mál er í sjálfu sér ekki vont, en ég tel að þetta hlutfall, 5,3% af heildarúthlutuðum afla yfir höfuð, sé bara allt of lágt. Það sé löngu kominn tími til að stokka það upp, bæði hvað varðar innihald og líka að stærri hluti fari í annað en aflamark þeirra aðila sem hafa fengið úthlutaðan kvóta miðað við aflahlutdeild. Samþjöppun í sjávarútvegi er auðvitað orðin allt of mikil og margir komnir með miklu meira en 12% af heildarmagni í gegnum alls konar dótturfélög. Hvort ríkisstjórnin hafi burði eða þor til að gera einhverjar breytingar kemur í ljós. Nú er auðlindanefnd að störfum og guð má vita hvað kemur út úr því starfi. Vonandi förum við að fá einhverja almennilega ríkisstjórn sem breytir þessu sjávarútvegskerfi.