146. löggjafarþing — 76. fundur,  31. maí 2017.

stjórn fiskveiða.

612. mál
[13:55]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég vil bara vekja athygli þingheims, ef það hefur farið fram hjá einhverjum, að þetta mál var lagt fram í gær. Við erum að fara að samþykkja það í dag. Ég veit að þetta er bara svona árleg breytingartillaga þar sem er alltaf verið að breyta gildistíma ár frá ári og búið að taka einhverja áratugi hér í þannig vinnslu. Mér finnst málið eiga það skilið að það sé rætt almennilega, það séu fengnar umsagnir, því að þó svo að þetta hafi verið samþykkt út frá einhverri hugmyndafræði árið 1990 fyrst hefur margt breyst. Það hefur margt breyst í þessu með breytingartillögum ár frá ári. Það er ekki bara dagskrárbreytingin sem hefur tekið breytingum. Það hefði verið gott að fá umsagnir, eins og öll þingmál eiga að fá, þótt það séu breytingar á ártölum. (Forseti hringir.) Síðan finnst mér líka svolítið mikilvægt að vekja athygli á því að það virðist sem málið hafi hreinlega bara gleymst. Þess vegna er það komið hingað inn. Það er bara allt í lagi að það komi hér fram. Þetta mál gleymdist, er að fara hér inn á afbrigðum. Svona stjórnsýsla, svona verklag á Alþingi, er ekki í boði.