146. löggjafarþing — 76. fundur,  31. maí 2017.

framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar.

378. mál
[14:09]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Það er mjög margt gott í þessari áætlun. Ég tek undir með hv. þingmanni sem talaði á undan mér um nauðsyn þess að fjalla um málefni barna og unglinga sem þurfa á aðstoð að halda varðandi t.d. fíknisjúkdóma.

Það sem ég vil leggja áherslu á varðandi þetta mál er að við erum með rosalega mikið af flottum áætlunum og stefnum er lúta að málefnum barna, en það verður að tryggja, ef verið er að gera svona áætlanir, að fjármunir fylgi með. Það er bara þannig. Síðan vil ég fagna því að gert er ráð fyrir svokallaðri ART-þjónustu til barna og vonandi er gert ráð fyrir fjármunum til að hægt verði að efla það úrræði, en það er mjög vel lukkað úrræði og hefur gagnast mjög mörgum börnum og unglingum.