146. löggjafarþing — 76. fundur,  31. maí 2017.

heilbrigðisáætlun.

57. mál
[14:25]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Sem nefndarmaður í velferðarnefnd þakka ég samstarfið við gerð þessarar tillögu eða afgreiðslu hennar í nefndinni. Hér er um að ræða tillögu frá stjórnarandstöðuflokki sem tekin var til umræðu í nefndinni og fékk þar verulega góða umfjöllun. Ég þakka nefndarmönnum og formanni nefndarinnar fyrir þátt hennar í þessu, og eins heilbrigðisráðherra fyrir gott samstarf við afgreiðslu málsins. Það eru allir sammála um að mikil þörf er á umræðu um heildstæða stefnu í heilbrigðismálum. Vinna við áætlunina getur einmitt hjálpað okkur verulega í því að ná samhljómi í þeim efnum. Auðvitað koma upp álitamál en þau eru þess eðlis að þau ber að leysa. Í vinnu okkar í velferðarnefnd tel ég að komið hafi fram mörg sjónarmið sem geta nýst vel í framhaldi vinnunnar innan ráðuneytisins, en eins og fram hefur komið hefur vinna við slíka áætlun verið í gangi á vegum ráðuneytisins (Forseti hringir.) bæði í tíð núverandi hæstv. heilbrigðisráðherra og þess sem áður sat í því embætti.