146. löggjafarþing — 76. fundur,  31. maí 2017.

heildstæð stefna í málefnum einstaklinga með heilabilun.

62. mál
[14:26]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Það er ástæða til að gleðjast yfir því að Ísland fetar nú með þessari tillögu í fótspor flestra okkar nágrannaþjóða sem sett hafa efni þetta á dagskrá með formlegum hætti. Um er að ræða mikið hagsmunamál fyrir fjölda einstaklinga og fjölskyldna þeirra. Þetta er samfélagsmál sem stöðugt verður áleitnara og snertir okkur öll með einum eða öðrum hætti einhvern tíma á lífsleiðinni. Auknir fjármunir eru ekki í forgrunni. Miklu fremur er verið að kalla eftir athygli heilbrigðisyfirvalda og gefa þessu málefni formlegan sess. Þetta er þáttur sem mun á næstu árum gera auknar kröfur til samfélagslegra innviða. Ályktunin miðar að því að samfélagið nýti auðlindir kerfis okkar með markvissum hætti, sýni aukinn skilning á erfiðum sjúkdómi og aðstæðum fjölskyldna og að mannúð og mannvirðing verði höfð að leiðarljósi.